Þríþrautarkonan Guðlaug Edda Hannesdóttir sigraði örugglega á móti í Pokhara í Nepal sem er hluti af asísku bikarmótaröðinni og undankeppni fyrir Ólympíuleikana.
Sigurinn var gríðarlega mikilvægur enda nálgast Guðlaug Ólympíusæti en afrekið er enn stærra í ljósi að Guðlaug hefur glímt við erfið meiðsli upp á síðkastið.
Í keppninni voru syntir 750 metrar, hjólaðir 20 km og loks voru hlaupnir 5 km en Ólympísk þríþraut er helmingi lengri, 1.500 metra sund, 40 kílómetra hjólreiðar og 10 kílómetra hlaup.
Guðlaug kom fyrst upp úr sundinu og leiddi eftir hjólreiðarnar. Þegar komið var í hlaupið stakk Guðlaug svo endanlega aðra keppendur af og landaði öruggum sigri.