Í vetur hefur 13 manna hópur ungmenna verið hluti af svokölluðum úrvalshópi sem vænt er að verði undirstaðan fyrir landsliðsverkefni framtíðarinnar. Hefur hópurinn meðal annars verið í sérstökum rannsóknum hjá rannsóknarstofu Háskóla Íslands í íþrótta- og heilsufræði. Allt er þetta hluti af mikilli endurskoðun í afreksmálum sem hefur það að markmiði að lyfta hjólreiðum á hærra plan.
Mikael Schou, afreksstjóri Hjólreiðasambands Íslands, ræddi við Morgunblaðið um það afreksstarf sem nú er í gangi og hvaða væntingar hann hefur til íslenskra keppenda á komandi misserum og árum.
Þessi uppbygging innan HRÍ er að eiga sér staða á sama tíma og blásið var til sóknar í afreksmálum innan Íþrótta- og ólympíusambands Íslands, en Vésteinn Hafsteinsson var fenginn til að taka við sem afreksstjóri ÍSÍ og síðasta haust var greint frá framtíðarsýn í afreksmálum undir heitinu Team-Iceland. Þá hóf einnig fyrrnefnd rannsóknarstofa samstarf við íþróttahreyfinguna.
Mikael segir að hjá HRÍ sé byggt á svipuðum afrekspýramída og Hafsteinn hefur unnið með þegar hann vann að afreksmálum í Svíþjóð, en hann þjálfaði tvo kúluvarpara sem náðu gulli og silfri á ólympíuleikunum í Tókýó. Lýsir Mikael því þannig að grunnurinn í öllu starfi sé starfsemi íþróttafélaga og klúbba, en svo taki við svokallaður afrekshópur fyrir ungmenni. Þar er efnilegu ungu fólki safnað saman og tekur það meðal annars þátt í árlegum hæfileikabúðum HRÍ.
Afrekshópurinn telur í dag um 30 manns, en við þá sem hafa náð lengst í afrekshópnum var svo gerður sérstakur samningur og mynda þau úrvalshóp. Samanstendur úrvalshópurinn af 13 manns í U23- og junior-flokki (U19) og segir Mikael að það sé grunnhópurinn á bak við landsliðsverkefnin í hjólreiðum í dag. Eru þetta keppendur sem hafa meðal annars landað Íslandsmeistaratitli eða bikarmeistaratitli í sínum aldurshópi.
Það er þó ekki þar með sagt að um lokaðan hóp sé að ræða, heldur segir Mikael að ef fólk standi sig vel séu dyrnar í afrekshóp og úrvalshópinn opnar og að einhver hreyfanleiki verði líklega milli hópa. Nú um helgina fara meðal annars hæfileikabúðir afrekshóps fram og er hópurinn ákveðinn stökkpallur upp í úrvalshóp með tíð og tíma.
Bæði afreks- og úrvalshóparnir ná til allra greina hjólreiða að sögn Mikaels, með þeirri undantekningu þó að ekki er sérstaklega horft til malarhjólreiða, þrátt fyrir að vera ein vinsælasta hjólagreinin hér á landi í dag. Helgast það af því að ekki eru haldin Íslandsmót eða bikarmót í greininni.
Afrekshópurinn nær niður í barnahópa en úrvalshópurinn miðar við 17 ára og eldri. Segir Mikael að þar sé fylgt erlendum stöðlum í þessum málum. Þá gefi þetta einnig afreksteyminu betra tækifæri til að fylgjast nægjanlega vel með úrvalshópnum, en hluti af samkomulaginu er meðal annars að Mikael verður að svokölluðum yfirþjálfara og hefur innsýn inn í þjálfun hvers og eins sem er í hópnum í gegnum æfingaforritið Training Peaks.
Auk þess segir Mikael að samningurinn við úrvalshópinn geri ráð fyrir aðstoð og aðgengi þeirra sem þar eru að heilbrigðisþjónustu eins og sjúkraþjálfun og andlegri þjálfun. Þá fái úrvalshópurinn góða fræðslu í ýmsum málefnum sem geti varðað afreksíþróttafólk.
„Þau læra inn á sig og hvað það er að vera afreksmaður,“ segir Mikael og bætir við að setja þurfi sig í sérstakar stellingar sérstaklega þegar komi að því að horfa til þess hvað langan tíma taki að þjálfa sig upp til að komast í fremstu röð. „Það er talað um að það taki hjólreiðafólk um 10 ár að ná á toppinn og það er langur tími fyrir ungt fólk,“ segir hann.
Undanfarin ár segir Mikael að mjög gott starf hafi verið unnið innan nokkurra hjólreiðafélaga við að byggja upp ungt og efnilegt hjólreiðafólk og það sé nú að skila sér inn í ungliðaflokkana. „Við föngum svo helsta efnið og skærustu stjörnurnar sem eru að skila bestum árangri á mótum ársins,“ segir hann.
Eitt af því sem allir í úrvalshópnum gera er að fara í ítarlegar mælingar hjá fyrrnefndri rannsóknarstofu í íþrótta- og heilsufræðum. Fer hver og einn í allavega 2-3 mælingar nú á fyrri hluta ársins, en þar er meðal annars mældur liðleiki, styrkleiki, súrefnisupptaka, vattatölur og fleira.
Mikael segir að rannsóknirnar á hjólreiðafólkinu séu líklega umfangsmesta íþróttamælingaverkefni sem ráðist hafi verið í hér á landi á einum hópi. Þegar sé búið að fara í nokkrar mælingar, en svo þegar fleiri bætist við, sérstaklega með auknu æfingaálagi eftir veturinn, verði hægt að kortleggja betur veikleika og styrkleika hvers og eins. Út frá þessum gögnum verði svo hægt að vinna með að bæta ákveðin atriði, hvort sem það er í styrk eða liðleika.
Þrátt fyrir öfluga ungmennahópa sem eru að koma upp hér segir Mikael að nauðsynlegt sé fyrir þá sem ætli sér að ná vel áfram í hjólreiðum að sækja keppnir og æfingabúðir erlendis. Slíkt hafi verið að færast í vöxt hjá íslensku hjólreiðafólki og segir hann sérstaklega unga fólkið og konur í elite-flokki dugleg að fara. Nýjasta dæmið sé þriggja daga keppni í Danmörku yfir páskana þar sem hópur íslenskra keppenda var mættur á ráslínuna.
„Þetta eru kröfurnar sem við erum að setja á okkar helsta keppnisfólk. Það þarf að leita út og fá reynsluna úti. Það þýðir ekki að staðna hér heima og ætla sér svo stóra hluti úti í heimi,“ segir Mikael. Spurður út í hvaða væntingar hann hafi til íslenskra keppenda á komandi árum segir Mikael að markmiðið sé að vera á pari við aðrar Norðurlandaþjóðir hvað viðkemur möguleikum ungmenna til að komast í fremstu röð. Ítrekar hann að til þess að ná svona árangri þurfi að koma upp sterkari landsliðsmenningu sem miði meðal annars að því að senda reglulega út sex manna landslið sem geti sem lið tekið þátt í punktamótum og skilað Íslandi nauðsynlegum stigum til að verða gjaldgeng á EM og HM.
Hingað til hefur Ísland nefnilega ekki verið með nægjanlega mörg stig til að eiga fast sæti til dæmis á stærstu götuhjólamótum ársins, nema þá í gegnum tilviljanakennd boðskort (e. Wildcard). „Við viljum komast á þann stað að komast á mót út frá verðleikum og að fá stærri kvóta keppenda,“ segir Mikael.
Ungmennastarf á Norðurlöndunum, sérstaklega í Noregi og Danmörku, hefur verið gríðarlega öflugt undanfarin ár og bæði konur og karlar í fremstu röð sem koma frá þessum tveimur löndum í dag.
Spurður hvort það sé í alvöru raunhæft að Ísland geti getið af sér hjólreiðafólk í slíkum gæðaflokki segir Mikael að slíkt eigi að vera mögulegt en fjármunir standi helst í vegi fyrir því að lyfta efnilegasta fólkinu enn ofar. Þar á hann aftur við að senda þurfi þetta fólk reglulega utan til að sækja sér keppnisreynslu. „Með meira fjármagni gætum við haldið úti fleiri ferðum og farið á fleiri mót, sem skilar reynslu og nauðsynlegum stigum,“ segir Mikael.
Bendir hann jafnframt á að á meðan íslenskir keppendur þurfi helst að byggja upp reynslu í minni keppnum, þá séu reglur afrekssjóðs ÍSÍ þannig að einungis fáist styrkir til að fara á EM, HM og ólympíuleikana. Slíkt gagnist ekki sem skyldi, þar sem íslenskir keppendur séu þá að fara úr mótum hér landi beint yfir í stærstu keppnir ársins, en þá vanti í raun millikeppnir til að vinna sig upp í getu.
Er þá mögulegt að við sjáum fleiri Íslendinga sem atvinnumenn í hjólreiðum á komandi árum? „Já, það er það sem við erum að vinna með í dag. Markmiðið er að mynda grunn að því að geta séð íslenskt hjólreiðafólk á hæsta stigi og verða gjaldgengt í atvinnumannalið á næstu 10 árum,“ segir Mikael.
„Með áframhaldandi starfsemi, með aðstoð hjólreiðafélaga og auknu fjármagni frá afrekssjóði ÍSÍ og innspýtingu frá einkaaðilum, gæti þetta orðið möguleiki innan næstu 10 ára,“ segir hann að lokum.
Úrvalshópur HRÍ:
Greinin birtist fyrst í Hjólablaði Morgunblaðsins sem lesa má í heild hér: