Mögnuð upplifun sem mun aldrei gleymast

Mari hljóp 57 hringi og yfir 380 kílómetra og vann …
Mari hljóp 57 hringi og yfir 380 kílómetra og vann hlaupið eftir að Elísa Kristinsdóttir skilaði sér ekki í mark á 57. hring. mbl.is/Arnþór

Þegar Mari Järsk, Elísa Krist­ins­dótt­ir og Andri Guðmunds­son höfðu hlaupið í sólarhring samfleytt ákváðu þau í sameiningu að slá Íslandsmet. Það tókst um 27 klukkustundum síðar. Mari, sem var í fyrsta sæti í bakgarðshlaupi Nátt­úru­hlaupa í gær, er hæstánægð með afrekið.

Þau lögðu af stað í bak­g­arðshlaupið kl. 9 að laugardagsmorgni. Í gær kláruðu þau 51. hringinn og slógu þannig Íslandsmet. Síðan héldu þau áfram. Andri tók einn í viðbót, hljóp 52 hringi. Elísa hljóp 56 en Mari hljóp 57 hringi og bar sigur úr býtum, eftir að hafa farið 381 km á 57 klukkustundum.

„Þetta var virkilega góður hópur,“ segir Mari í samtali við mbl.is. Ekki má hlaupa annan hring án þess en hlaupararnir hvöttu hvor annan alla leið. „Við vildum öll að okkur gengi vel.“

Hlaupadrottningin Mari er 36 ára, fædd og uppalin í Eistlandi en hefur búið á Íslandi í tæplega tvo áratugi. Um miðjan október hyggst Mari keppa aftur í bakgarðshlaupi í Elliðaárdal. Sigurvegarinn þar verður fulltrúi Íslands á heimsmeistaramótinu sem haldið verður í Tennessee á næsta ári.

Mari, Elísa og Andri komu saman í þegar þau kláruðu …
Mari, Elísa og Andri komu saman í þegar þau kláruðu 51. hringinn sinn og slógu saman Íslandsmet. mbl.is/Arnþór Birkisson

Bólgnaði upp þegar hún hætti að hlaupa

„Þegar ég vaknaði var þetta svolítið ómögulegt,“ segir Mari um líkamsástandið.

Í gær gat hún ekki staðið í lappirnar til að taka við verðlaunabikarnum sínum, þar sem fæturnir hennar höfðu skyndilega tekið að bólgna þegar hún hætti að hlaupa. Voru vinur hennar og eiginmaður hennar fengnir í að bera hana heim.

„Ég var alveg vel bólgin í morgun en ég er komin á fætur og er fín. Get labbað og allt.“

Hún segir viðbrögðin frá vinum sínum og fjölskyldu vera afar góð en hún hefur enn ekki haft tíma til að svara öllum hrósum og hamingjuóskum sem henni hafa borist.

„Ég er ekki alveg búin að meðtaka það sem er að gerast,“ segir hún en gerir sér samt fulla grein fyrir því hversu stórt afrekið er.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, tók á móti Mari er …
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, tók á móti Mari er hún settu nýtt Íslandsmet ásamt vinum sínum. Arnþór Birkisson

Hvernig virkar bakgarðshlaupið?

Keppendur hlaupa 6,7 kíló­metra hring eins oft og þeir geta, fá klukkutíma að til að klára hringinn hverju sinni. Hver hringur byrjar á heila tímanum og þurfa keppendur að vera komnir í ráshólfið og hlaupa af stað þegar bjallan hringir á næsta heila tíma, annars eru þeir dæmdir úr keppni.

Eftir hvern hring má nota tímann sem er eftir af klukkutímanum til að hvílast og undirbúa sig fyrir næsta hring. Keppandi má ekki leggja af stað í næsta hring fyrr en hlauparinn á eftir honum hefur einnig lokið hringnum sínum. Mari mátti þess vegna ekki taka 58. hringinn.

„Ég reyndi að leggjast niður en ég náði aldrei að sofna,“ segir Mari um hvíldina á milli hringa. 

Hún segist aftur á móti ekki hafa verið buguð þegar hún kláraði 57. hringinn. Að hluta til var það vegna þess að Mari vissi ekki að hún hefði unnið fyrr en í ljós kom að Elísa hefði ekki náð að klára 57. hringinn innan klukkustundarinnar. 

„Ég stillti hausinn og líkamann þannig að ég þurfti bara að halda áfram einhvern veginn.“

Og hún stóð þá uppi sem sigurvegarinn.

mbl.is/Arnþór

Hætti að reykja

Mari hætti á dögunum að reykja. Það var víst alltaf áætlunin en fyrst bakgarðshlaupið var í aðsigi tók hún þá ákvörðun um að hætta.

Hefur henni tekist það með aðstoð frá Tómasi hjartalækni.

Hún vill samt ekki meina að hún hafi unnið aðeins vegna þess að hún hætti að reykja en viðurkennir að það hafi sennilega hjálpað að einhverju leyti.

„Maður á miklu auðveldara að næra sig þegar maður er ekki að reykja,“ segir hún.

„Já, við ætlum að slá Íslandsmetið og við ætlum að gera það öll saman“

„Það var bara sturlað, ég bjóst ekki við því að við myndum fara svona langt,“ segir Mari um Íslandsmetið sem hún, Elísa og Andri slógu öll þegar þau kláruðu 51. hringinn sinn. Fyrra met hafði sum sé verið 50 hringir.

Spurð út í eftirminnilegasta augnablikið úr hlaupinu svara Mari: „Það var bara þessi samstaða sem var í okkur, Andra og Elísu. Að slá Íslandsmetið saman var alveg stórt fyrir okkur.“

Hún segir að ákvörðunin um að reyna við Íslandsmetið hafi verið tekin nokkuð snemma í miðju hlaupinu.

„Við vorum bara búin að hlaupa í sólarhring þegar við vorum eitthvað: Já, við ætlum að slá Íslandsmetið og við ætlum að gera það öll saman,“ segir hún.

„Þetta var mögnuð upplifun og hún mun aldrei gleymast.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert