Handtekinn grunaður um brot gegn barni

Lögregla handtók þekktan kynni íþrótta. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Lögregla handtók þekktan kynni íþrótta. Myndin tengist fréttinni ekki beint. AFP/Justin Talliss

Vel þekktur kynnir íþrótta í bresku sjónvarpi var á dögunum handtekinn, grunaður um að hafa nauðgað barni undir tíu ára aldri oftar en einu sinni.

The Telegraph greinir frá því að kynnirinn hafi verið handtekinn og yfirheyrður í 18 klukkustundir, áður en honum var sleppt úr haldi gegn tryggingu á meðan rannsókn verður haldið áfram.

Kynninum er gefið að sök að hafa á ákveðnu tímabili nauðgað stúlkubarni undir tíu ára aldri nokkrum sinnum.

Vinnuveitendum mannsins hefur verið tilkynnt um handtöku hans en fyrirtækið hefur ekki tjáð sig opinberlega um málið.

Ekki leyfilegt að opinbera nafn mannsins

Götublaðið The Sun greindi fyrst frá handtökunni og hefur Telegraph fengið handtökuna og nafn kynnisins staðfest.

Samkvæmt reglum á Bretlandseyjum mega fjölmiðlar ekki opinbera nafn hans á meðan rannsókn stendur yfir.

Lögreglan gerði húsleit á heimili mannsins og gerði þar tölvur og skjöl upptæk til frekari rannsóknar.

Í samtali við The Sun sagði nágranni kynnisins að nágrannar hans væru í áfalli yfir handtökunni og húsleitinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert