Þríþrautarkonan Guðlaug Edda Hannesdóttir keppir á Ólympíuleikunum í París í sumar en Alþjóða þríþrautarsambandið hefur staðfest þátttöku hennar þar.
Guðlaug Edda hefur unnið til verðlauna á þremur alþjóðlegum þríþrautarmótum í Asíu í þessum mánuði og sá árangur hefur tryggt henni nægilega gott sæti á styrkleikalista Alþjóða þríþrautarsambandsins til þess að fá úthlutað boðssæti á leikunum.
Guðlaug Edda er komin upp í 143. sæti heimslistans og hefur hækkað sig þar jafnt og þétt að undanförnu. Á heimasíðu alþjóðasambandsins er staðfest að hún hafi fengið sæti og sé ein af 55 konum sem keppi á leikunum í París í sumar.
Hún er þar með fyrsti Íslendingurinn sem keppir í þríþraut á Ólympíuleikum en greinin hefur verið á leikunum síðan í Sydney árið 2000.
Þar með hafa tveir Íslendingar fengið staðfesta þátttöku á Ólympíuleikunum en langt er síðan sundmaðurinn Anton Sveinn McKee tryggði sér keppnisréttinn þar.