Þríþrautarkonan Guðlaug Edda Hannesdóttir keppir á Ólympíuleikunum í París í sumar. Hún verður fyrst Íslendinga til að keppa í þríþraut á Ólympíuleikum.
Guðlaug Edda hefur unnið til verðlauna á þremur alþjóðlegum þríþrautarmótum í Asíu í þessum mánuði og sá árangur hefur tryggt henni nægilega gott sæti á styrkleikalista Alþjóða þríþrautarsambandsins til þess að fá úthlutað boðssæti á leikunum.
Í þríþrautarkeppni er keppt í sundi, hjólreiðum og hlaupi. Fyrst er synt í einn og hálfan kílómetra í opnu vatni. Síðan eru hjólaðir 40 kílómetrar og loks hlaupnir tíu kílómetrar.
Sjónvarpsstöðin France 24 í Frakklandi lýsir hins vegar yfir miklum áhyggjum tengdum þríþrautarkeppninni.
Útisund leikana fer fram í ánni Signu. Áhyggjurnar liggja þar en Parísarbúum hefur verið meinað að synda í Signu í hundrað ár. Miklu er tjaldað til að hreinsa ána, en tekst það?
France 24 greinir jafnframt frá því að lítið sé um svör þegar leitast er eftir upplýsingum um mælingar á sýkla- og veirufjölda í ánni. Fréttakona segist sjá merki um að enn séu óhreinindi í ánni.
Mótshaldarar halda hins vegar í vonina um að ná að hreinsa ána fyrir mótið. Þá hafa keppendur verið bólusettir fyrir fjölmörgu.