Þriðji Íslendingurinn á leið á Ólympíuleikana

Hákon Þór Svavarsson er á leið á ÓL í París.
Hákon Þór Svavarsson er á leið á ÓL í París. Ljósmynd/ÍSÍ

Skotíþróttamaðurinn Hákon Þór Svavarsson hefur fengið boð um þátttöku á Ólympíuleikunum í París í sumar.

Íþrótta- og Ólympíusamband tilkynnti þetta í dag á heimasíðu sinni og þar kemur fram að Alþjóða ólympíunefndin hafi staðfest þátttöku hans í dag.

Hákon, sem keppir í leirdúfuskotfimi (skeet) með haglabyssu á leikunum, hefur stefnt markvisst að því að komast á leikana á undanförnum árum en hann er núna í Lonato á Ítalíu þar sem heimsbikarmót í greininni er að hefjast. 

Hákon er 46 ára gamall, búsettur á Selfossi, og keppir fyrir Skotíþróttafélag Suðurlands.

Þar með hafa þrír Íslendingar tryggt sér keppnisrétt á leikunum í París í sumar en sundmaðurinn Anton Sveinn McKee og þríþrautarkonan Guðlaug Edda Hannesdóttir eru einnig á leið þangað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert