Símon Elías Statkevicius synti mjög gott 100 metra skriðsund í morgun á Evrópumeistaramótinu í 50 metra laug í Belgrad þegar hann bætti tíma sinn í greininni.
Símon Elías synti á tímanum 51,51 sekúndu. Gamli tíminn hans var 51,67 sekúndur, sem Símon Elías náði á Smáþjóðaleikunum á Möltu í fyrra. Hann hafnaði í 67. sæti af 87 keppendum í greininni.
Hann syndir næst á föstudaginn í 50 metra skriðsundi.
Jóhanna Elín Guðmundsdóttir synti 50 metra flugsund í morgun þegar hún synti á tímanum 27,99 sekúndur og hafnaði í 25. sæti af 32 keppendum.
Jóhanna Elín var alveg við sinn besta tíma sem er 27,69 sekúndur. Jóhanna Elín syndir næst á föstudaginn í 50 metra skriðsundi.
Birgitta Ingólfsdóttir synti 100 metra bringusund á tímanum 1:15,34, sem er töluvert frá hennar besta tíma. Birgitta varð fyrir því óhappi að skera sig mjög illa undir fæti í upphitun og náði því ekki að undirbúa sig sem skyldi. Hún hafnaði í 32. sæti af 33 keppendum.
Birgitta sýndi af sér mikla hörku þrátt fyrir þetta óhapp og kláraði sitt fyrsta sund á stórmóti, en vonir standa til að hún syndi 50 metra bringusund á laugardaginn.
Á morgun mun Anton Sveinn McKee synda 200 metra bringusund og Snæfríður Sól Jórunnardóttir syndir 200 metra skriðsund.