Endurkoma eftir alvarlegt slys og varð meistari

Kristín Edda Sveinsdóttir varð Íslandsmeistari um helgina.
Kristín Edda Sveinsdóttir varð Íslandsmeistari um helgina. Ljósmynd/Anton Gunnarsson

Kristín Edda Sveinsdóttir varð um helgina Íslandsmeistari kvenna í ólympískum fjallahjólreiðum. Þetta var endurkoma hennar eftir þriggja ára fjarveru í greininni eftir að hafa slasast alvarlega árið 2021.

„Ég var drulluhrædd við brautina,“ segir Kristín Edda, um brautina á Íslandsmótinu á laugardaginn í samtali við mbl.is.

Spurð út í undirbúninginn fyrir keppnina segir Kristín að hún hafi verið að æfa sig að hjóla brautina í tvær vikur fyrir keppnina en að hún hafi annars bara verið í götuhjólreiðum síðan hún slasaðist fyrir þremur árum. „Ég er pínu ryðguð í tækninni og svona af því ég hef ekkert keppt í fjallahjólum í þrjú ár út af því að ég fékk alvarlegt höfuðhögg 2021.“

„Ekkert svo viss um að ég myndi keppa“

„Ég var ekkert svo viss um að ég myndi keppa af því ég var svo hrædd við brautina og ég bjóst alls ekki við þessu. Það bara eitt og sér að geta hjólað brautina og klárað keppnina var sigur út af því ég hef ekkert náð að hjóla. Þannig ég var bara ótrúlega ánægð með þetta,“ segir hún, spurð hvort hún hafi búist við því að sigra í keppninni.

Hún var með það markmið fyrir keppnina að komast fyrst inn í fyrstu beygjuna, sem henni tókst, en eftir það náði hún smá bili sem jókst með hverjum hring.

Kristín segist vera alveg bólgin á báðum hnjám eftir þetta og að síðan keppninni lauk hafi hún bara verið að kæla og hvíla sig.

„Það vantar alltaf konur“

Spurð hvernig framtíð hennar í hjólreiðum líti út segir Kristín að hún vonist til þess að komast inn í flott kvennalið í götuhjólreiðum erlendis en hún hefur einnig verið að hjóla úti í Danmörku.

Hún segir götuhjólreiðar vera númer eitt, tvö og þrjú hjá sér en „fjallahjólið hefur verið til að hafa gaman, vera með, því það vantar alltaf konur“.

Kristín Edda og Kristinn Jónsson urðu Íslandsmeistarar í ólympískum fjallahjólreiðum á laugardaginn en bæði eru þau í Hjólreiðafélagi Reykjavíkur.

Á mótinu þurftu keppendur að hjóla fimm 4,7 kílómetra langa hringi í mikilli drullu í Öskjuhlíðinni en mótið var haldið af Hjólreiðafélagi Reykjavíkur í samstarfi við Örninn Trek.

Kristinn Jónsson og Kristín Edda Sveinsdóttir.
Kristinn Jónsson og Kristín Edda Sveinsdóttir. Ljósmynd/Sveinn Ottó Sigurðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert