Íþróttir þurfa 800 milljónir í viðbót

Íslenska handboltalandsliðið.
Íslenska handboltalandsliðið. Ljósmynd/Kristján Orri

Andri Stefánsson, framkvæmdastjóri Íþróttasambands Íslands, segir framlag ríkisins til íþrótta vera of lágt til að halda úti afreksstarfi með góðu móti. Andri kallar eftir þrefalt hærri upphæð.

Afrekssjóður ÍSÍ fær 392 milljónir á ári frá ríkinu en Andri segir í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að ef mið sé tekið af verðlagshækkunum undanfarin ár ætti sú tala að vera 150 milljónum hærri. Mikið tap er á rekstri sérsambanda vegna afreksstarfs landsliða og HSÍ til að mynda skilaði tapi upp á 85 milljónir á síðasta rekstrarári.

Hávær umræða hefur verið um kostnað íslenskra ungmenna sem þurfa að leggja út fleiri hundruð þúsund krónur til að geta spilað fyrir Íslands hönd í íþróttum og Andri segir íþróttahreyfinguna þurfa 800 milljónir, ofan á það sem nú er lagt til, ef halda á úti mannsæmandi afreksstarfi á Íslandi.

„Í dag erum við að horfa á það fyrir næsta ár að það verði að koma inn aukapeningar. Við erum að stilla því upp að lágmarkstala í því þyrfti að vera í kringum 800 milljónir aukalega“, segir Andri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert