Ólympíumeistarinn datt og ver ekki titilinn

Athing Mu kemur langfyrst í mark í 800 metra hlaupi …
Athing Mu kemur langfyrst í mark í 800 metra hlaupi kvenna á Ólympíuleikunum í Tókýó árið 2021. AFP

Bandaríkjakonan Athing Mu, Ólympíumeistari í 800 metra hlaupi, mun ekki fá tækifæri til þess að verja titil sinn á leikunum í París sumar eftir að hún datt við keppni í undankeppni leikanna í Eugene í Oregonríki í gær.

Fréttaveitan AP greinir frá því að þjálfari Mu, Bobby Kersee, hafi sagt að annar hlaupari hafi rekist í hana undir lok fyrsta hrings, sem hafi valdið því að Mu skrikaði fótur og féll til jarðar.

Hún ásamt nokkrum öðrum féllu við í árekstrinum og kláruðu hlaupið. Sáu dómarar ekki ástæðu til að breyta niðurstöðu hlaupsins þrátt fyrir mótmæli Mu, og tókst henni því ekki að tryggja sér sæti á leikunum í greininni þar sem Mu var ekki á meðal þriggja efstu í undankeppninni.

Hún á enn möguleika á því að vera hluti af 4x400 metra sveit Bandaríkjanna í boðhlaupi kvenna, þar sem Mu vann einnig til gullverðlauna á Ólympíuleikunum í Tókýó árið 2021.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert