Ungur badmintonspilari lést á vellinum

Myndin er tekin á mótinu. Þátttakendur á mótinu báðu fyrir …
Myndin er tekin á mótinu. Þátttakendur á mótinu báðu fyrir Zhijie. AFP

17 ára gamall kínverskur badmintonspilari lést á badmintonvelli á alþjóðlegu móti í Indónesíu í gærkvöld.

Zhang Zhijie veiktist skyndilega í leik gegn japönskum andstæðingi sínum á Asíumeistaramótinu sem haldið var í Yogyakarta. Hann fékk aðhlynningu á vettvangi og var fluttur með sjúkrabíl á nærliggjandi sjúkrahús þar sem hann lést eftir að endurlífgunartilraunir báru ekki árangur.

Hæfileikaríkur drengur

Talið er að Zhijie hafi fengið hjartastopp en í yfirlýsingu badmintonsambands Asíu og Indónesíu segir að badmintonheimurinn hafi misst hæfileikaríkan spilara, sem var í áttunda sæti á heimslista yngri badmintonspilara.

„Læknisfræðilegar niðurstöður benda til þess að hann hafi fengið skyndilegt hjartastopp,“ sagði Broto Happy, talsmaður badmintonsambands Indónesíu, á blaðamannafundi í Yogyakarta.

Zhang Zhijie byrjaði að æfa og spila badminton ungur að árum og var valinn í unglingalandslið Kínverja á síðasta ári. Fyrr á þessu ári bar hann sigur úr býtum í einliðaleik á hollenska unglingameistaramótinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert