Wimbledon mótið hefst í dag

Novak Djokovic tapaði úrslitaleiknum í fyrra gegn Carlos Alcaraz
Novak Djokovic tapaði úrslitaleiknum í fyrra gegn Carlos Alcaraz AFP/Sebastien Bozon

Fyrsti dagur hins sögufræga Wimbledon móts í tennis er í dag. Fyrsta mótið var haldið árið 1877 þar sem keppt var í einliðaleik karla en Wimbledon er eina stórmótið sem haldið er á grasvöllum.

Ríkjandi meistari, Carlos Alcaraz hefur leik klukkan 12:30 að íslenskum tíma þegar hann mætir Eistanum Mark Lajal en Spánverjinn er þriðji maður á heimslistanum og í feykna formi eftir sigurinn á Opna franska mótinu.

Efstu menn á lista eru Ítalinn ungi, Jannik Sinner, í fyrsta sæti en hann er tuttugu og tveggja ára gamall og vann Opna ástralska mótið í byrjun árs. Goðsögnin Novak Djokovic er annar á lista og segist vera klár í slaginn þrátt fyrir smávægilega hnéaðgerð í byrjun júnímánðar. 

Kvennamegin eru leirdrottningin Iga Swiatek, bandaríska TikTok stjarnan Coco Gauff og Hvít-Rússinn Aryna Sabalenka í efstu sætunum á styrkleikalistanum en ríkjandi meistarinn Markéta Vondrousova er sjötta á listanum.

Coco Gauff og Aryna Sabalenka eru sigurstranglegar á Wimbledon
Coco Gauff og Aryna Sabalenka eru sigurstranglegar á Wimbledon AFP/Angela Weiss
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert