Söguleg stund í Frakklandshjólreiðunum

Mark Canvedish kemur fyrstur í mark á fimmtu dagleið í …
Mark Canvedish kemur fyrstur í mark á fimmtu dagleið í Frakklandshjólreiðunum í dag og setur sögulegt met. AFP/Marco Bertorello

Breski hjólreiðakappinn Mark Cavendish vann fimmtu dagleið Frakklandshjólreiðanna (e. Tour de France) nú rétt í þessu. Með sigrinum er Cavendish heldur betur búinn að stimpla sig inn í sögubækurnar, en hann hefur nú unnið 35 dagleiðir í Frakklandshjólreiðunum, fleiri dagleiðir en nokkur annar í sögunni. 

Með sigrinum tekur Cavendish fram úr belgísku goðsögninni Eddy Merckx sem hafði unnið 34 dagleiðir á ferli sínum á sjöunda og áttunda áratugnum.

Fyrsti sigurinn árið 2008

Cavendish flokkast sem spretthjólari (e. sprinter) og hefur safnað sigrum í Frakklandshjólreiðunum frá því árið 2008. Náði hann sigri öll árin á milli 2008 og 2016. Það var svo árið 2021 að hann fékk tækifæri á ný, þegar margir höfðu afskrifað hann, hjá liðinu Deceuninck - Quick Step og tók hann þá nokkuð óvænt fjórar dagleiðir og var allt í einu búinn að jafna fyrra met Merckx. 

Liðstjóri liðsins ákvað hins vegar að taka ekki Cavendish með árið eftir, heldur setti traust sitt á spretthjólarann Fabio Jakobsen sem skilaði einum sigri.

Cavendish ákvað í kjölfarið að færa sig um set til liðsins Astana. Þurfti hann því miður að hætta þátttöku eftir áttundu dagleið í fyrra eftir meiðsli sem hann hlaut.

Þótti ekkert of líklegur til sigurs fyrir keppnina

Ekki voru allir vissir með hvernig formi Cavendish væri í fyrir Frakklandshjólreiðarnar í ár og töldu margir að ólíklegt væri að hann myndi nokkurn tímann ná öðrum sigri og þar með taka fram úr Merckx. Hafa ungir og efnilegir spretthjólreiðamenn stigið fram á síðustu árum sem þykja öflugari en Cavendish og hafa þeir sópað upp verðlaunum á síðustu árum meðan Cavendish hefur þurft að sætta sig við að vera aftar og komast sjaldnar á pall.

Cavendish sannaði hins vegar í dag að hann er ekki dauður úr öllum æðum, óð fram úr helstu keppinautum sínum á lokametrunum í borginni Saint Vulbas og kom fyrstur í mark. Eins og gefur að skilja fagnaði Cavendish vel eftir að hann kom í mark með liðsfélögum sínum og þá sást líka að fjöldinn allur af keppinautum hans lagði leið sína til hans til að óska honum til hamingju.

Ekki er langt síðan Cavendish hlaut nafnbótina Sir vegna árangurs síns í hjólreiðum og í starfi sínu að breiða út íþróttina á Bretlandseyjum.

Um hvað snúast Frakklandshjólreiðarnar?

Frakklandshjólreiðarnar eru stærsta og þekktasta hjólreiðakeppni heims. Árlega eigast þar við 22 lið sem hvert er með 8 hjólreiðamenn innanborðs. Skiptist keppnin upp í 21 dagleið, en dagleiðir flokkast svo sem flöt dagleið, hæðótt dagleið, klifur dagleið eða tímataka. Sá sem er með besta heildartímann eftir allar dagleiðirnar vinnur heildarkeppnina og klæðist gulu treyjunni þekktu. 

Hins vegar er ekki eingöngu keppt um gulu treyjuna, heldur eru einnig minni keppnir innan stóru keppninnar. Þar er keppt um grænu treyjuna og doppóttu treyjuna, en þær treyjur fá þeir sem safna flestum sprettstigum annars vegar og stigum í klifrum hins vegar. 

Til viðbótar við þessar keppnir sem ná yfir allar dagleiðirnar, þá þykir einnig mikill heiður að vinna stakar dagleiðir, þannig að í raun má segja að um sé að ræða 21 keppni sem svo myndi heildarkeppnina.

Einbeitir sér að flatari dagleiðunum

Þar sem Cavendish flokkast sem spretthjólari hefur hann litla möguleika á að vinna heildarkeppnina, en þar þurfa keppendur að vera afburða góðir í klifri og tímatöku, sem og nokkuð góðir á flatari dagleiðum. Spretthjólarar einbeita sér hins vegar að flatari dagleiðunum, en þær enda jafnan í fjölmennum hópspretti þar sem hjólarar ná oft yfir 70 km/klst hraða við markið. Þar skiptir því meira máli að ná sem mestum krafti og hraða í stuttan tíma, eftir langa dagleið, frekar en að hafa úthaldið í löng klifur eða fjölda minni hæða.

Í slíkum hamagangi verða stundum slys og á síðustu árum hafa nokkur af alvarlegustu slysum hjólreiða orðið við slíkar aðstæður. Það er því oft talað um að spretthjólarar þurfi að hafa einstaklega sterkar taugar, því að hjóla innan um tugi annarra hjólreiðamanna á þessum hraða þegar allt er á fullu er ekki fyrir hvern sem er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert