Rofar til í Signu

Signa í baksýn konu sem stillir sér upp.
Signa í baksýn konu sem stillir sér upp. AFP/Julien de Rosa

Vatnsgæði í ánni Signu, sem rennur meðal annars í gegnum París, hafa batnað umtalsvert með batnandi veðri að undanförnu.

Í síðasta mánuði gáfu mælingar á vatninu í Signu til kynna að það væri of skítugt til þess að hægt væri að synda í henni.

Til stendur að sundhluti þríþrautar á Ólympíuleikunum í París, sem Guðlaug Edda Hannesdóttir tekur þátt í, fari fram í Signu. Einnig verður synt í Signu í sér grein, útisundi.

Samkvæmt mælingum sem skrifstofa borgarstjóra Parísar birti opinberlega í dag hafa bakteríurnar e. coli og enterókokkar mælst innan ásættanlegra marka í ánni undanfarna fjóra daga.

Þar hjálpar til hlýtt og sólríkt veður í höfuðborginni undanfarna rúma viku en mikil rigning þar á undan olli því að ofangreindar bakteríur mældust yfir ásættanlegum mörkum.

Keppni í þríþraut fer fram 30. - 31. júlí og 5. ágúst og keppni í útisundi 8. - 9. ágúst.

Guðlaug Edda Hannesdóttir.
Guðlaug Edda Hannesdóttir. Ljósmynd/Þríþrautarsambandið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert