Frjálsíþróttakonan Erna Sóley Gunnarsdóttir fer á Ólympíuleikana í París sem hefjast í lok þessa mánaðar.
RÚV greinir frá því að Íþrótta- og Ólympíusambandið, ÍSÍ, hafi staðfest að Erna Sóley, sem keppir í kúluvarpi, sé formlega búin að öðlast keppnisrétt á leikunum.
Hún sló eigið Íslandsmet í greininni á Meistaramóti Íslands á Akureyri um síðustu helgi. Þá kastaði Erna Sóley kúlunni 17,91 metra.
Hún verður fyrsta íslenska konan til að keppa í kúluvarpi á Ólympíuleikum en áður höfðu sjö íslenskir karlar keppt í greininni.
Fimm íslenskir íþróttamenn eru á leiðinni á leikana í París: sundfólkið Anton Sveinn McKee og Snæfríður Sól Jórunnardóttir, Hákon Þór Svavarsson sem keppir í leirdúfuskotfimi með haglabyssu, þríþrautarkonan Guðlaug Edda Hannesdóttir og loks Erna Sóley.