Forsetinn ósáttur: „Erum nánast á annarri plánetu“

„Við þurfum að horfast í augu við það að ef ósk okkar er sú að hlúa að afreksíþróttum þá verða efndir að fylgja orðum,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, í Fyrsta sætinu.

Guðni var kjörinn forseti Íslands í júní árið 2016 og tók formlega við embættinu hinn 1. ágúst sama ár en hann er mikill íþróttaáhugamaður og stundaði sjálfur handbolta og blak lengi vel. 

Verk að vinna

Afrekssjóður ÍSÍ  fékk 392 milljónir frá ríkinu í ár en, líkt og undanfarin ár, en Andri Stefánsson, framkvæmdastjóri ÍSÍ, sagði meðal annars á dögunum að upphæðin þyrfti að vera þrisvar sinnum hærri svo hægt væri að halda úti mannsæmandi afreksstarfi hér á landi.

„Þarna er verk að vinna og það er staðreynd að okkar íþróttafólk situr ekki við sama borð og íþróttafólk frá hinum Norðurlöndunum sem dæmi,“ sagði Guðni.

„Það er stundum fáránlegt en við viljum keppa sem jafningar og gerum það út á velli en þegar kemur að aðstöðu og utanumhaldi, þá erum við nánast á annarri plánetu,“ sagði Guðni meðal annars.

Málið getur vandast

Forsetinn fráfarandi telur þó að íþróttahreyfingin geti einnig lagt sitt á vogarskálarnar til þess að bæta eigin rekstur.

„Málið getur hins vegar vandast líka og það er fátt skemmtilegra en að horfa körfuboltalið karlanna hér á Álftanesi. Þeir sameina bæjarfélagið en margir sem keppa undir merkjum Álftanes koma að utan og þurfa sín laun og sitt uppihald.

Á sama tíma stöndum við í ströngu að halda uppi yngri landsliðum Íslands í körfubolta og leikmenn liðanna þurfa að standa í ströngu til þess að standa straum af kostnaðinum sem því fylgir.

Þyrftum við mögulega að taka upp einhverskonar kerfi, séu félögin tilbúin að borga erlendum leikmönnum ákveðna upphæð, að þá þurfi félögin líka að greiða sérsambandinu ákveðna upphæð sem hægt væri að nýta í yngri flokka starfið,“ sagði Guðni meðal annars.

Hægt er að hlusta á umræðuna í heild sinni í spil­ar­an­um hér fyr­ir ofan eða með því að smella hér. Þátt­ur­inn er einnig aðgengi­leg­ur á öll­um helstu hlaðvarps­veit­um.

Guðni Th. Jóhannesson.
Guðni Th. Jóhannesson. mbl.is/Eyþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka