Geggjað að vera fyrsta konan

Erna Sóley Gunnarsdóttir á blaðamannafundi ÍSÍ í dag.
Erna Sóley Gunnarsdóttir á blaðamannafundi ÍSÍ í dag. mbl.is/Eyþór

Frjálsíþróttakonan Erna Sóley Gunnarsdóttir er ein af fimm fulltrúum Íslands á Ólympíuleikunum í París en hún keppir í kúluvarpi.

Hún var síðasti fulltrúi Íslands inn á leikana og fékk það staðfest á föstudaginn að hún væri að fara en hún er ekkert að stressa sig á stuttum fyrirvara.

„Undanfarar fyrir svona stórmót hafa venjulega verið svona svipað langur tími, við fáum að vita svona rétt undir mánuð fyrir mót svo ég vissi alltaf að þetta myndi vera svona og finnst þetta allt í lagi,“ sagði Erna í viðtali við mbl.is í dag.

Þó að hún fékk það staðfest seint hefur hún verið að æfa og undirbúa sig eins og hún væri að fara á leikana.

„Undirbúningurinn hjá held ég öllu frjálsíþróttafólkinu var eins og við værum að fara svo það er bara að halda áfram þeirri stefnu og hafa gaman.“

Erna er 24 ára og er fyrsta konan til þess að keppa í kúluvarpi fyrir Íslands hönd á Ólympíuleikum.

„Þetta er frábært. Það er mjög mikil saga karlamegin, sjö karlmenn hafa keppt síðan fyrir alveg 70 árum síðan svo það er geggjað að vera fyrsta konan í greininni.“

Íslenskt frjálsíþróttafólk komst nálægt því að fara á leikana en hún var sú eina að lokum.

„Ég er aðeins svekkt yfir því, það er ógeðslega gaman með þeim og ég þekki frjálsíþróttafólkið vel og hélt mikið með þeim. Þau voru líka ótrúlega nálægt því sem er í sjálfu sér frábær árangur og ég hefði viljað hafa þau með.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert