Með háleit markmið fyrir Ólympíuleikana

Anton Sveinn Mckee á blaðamannafundi ÍSÍ í dag.
Anton Sveinn Mckee á blaðamannafundi ÍSÍ í dag. mbl.is/Eyþór

„Maður er með helling af reynslu til að vera 100% tilbúinn fyrir þetta,“ sagði sundmaðurinn Anton Sveinn McKee, sem er að fara á sína fjórðu Ólympíuleika í sumar.

 „Undirbúningurinn hefur gengið rosalega vel. Mótin sem ég var að keppa á í undirbúningsferlinu hafa verið með niðurstöður og árangur eins og maður vildi hafa þau. Nálægt bestu tímum en ég er ennþá að geyma það besta fyrir stærsta mótið.

Undirbúningsferlið sem slíkt hefur gengið yfir höfuð eins vel og maður getur óskað sér. Það eru alltaf einhver meiðsli og rússíbani sem fylgir þessu en yfir höfuð hefur þetta verið að leggjast í rétta átt. Við erum núna byrjaðir að keyra á sýruþoli eða svona úthaldi undir gífurlegu álagi og hraða,  svo við erum að taka út síðasta rykkinn núna og allt virðist ganga vel. Ég er spenntur fyrir leikunum og með háleit markmið.“

Anton stoppar stutt á Íslandi áður en hann fer út í lokaundirbúninginn fyrir Ólympíuleikana.

„Ég hef verið erlendis lengi, er núna heima í sex daga og fer svo út á laugardaginn aftur og tek nokkra daga að taka seinustu æfingabúðirnar í Terrassa og hitti Snæfríði þar. Við vorum saman í tveggja vikna æfingabúðum í Tyrklandi og kepptum á Evrópumótinu. Þar verður fínpússning og áhersla á að líða vel, það er búið að leggja alla vinnuna inn og núna er kominn tími til að ná henni út. Þetta er allt vel skipulagt og það eina sem maður þarf að gera er að mæta og fylgja plani.“

Markmiðið að komast eins hátt og mögulegt er 

Anton keppti á Evr­ópu­meist­ara­mót­inu í 50 metra laug í júní og var hársbreidd frá verðlaunapalli.

„EM var helvíti súrt en það mikilvægasta á EM var að fara í gegnum þetta ferli, keppa í undanrásum, undanúrslitum og  svo úrslitum. Margt jákvætt sem maður getur tekið út úr því og smá áherslubreyting hvernig ég ætla að keppa á Ólympíuleikunum  eftir því hvernig EM fór.

Markmiðið hefur alltaf verið að komast eins hátt og mögulegt er og markmið mitt núna er að komast í úrslit, ég er ekkert ófeiminn við að segja það. Það mun vera bardagi hvert einasta skref, komast upp úr undanrásum og undanúrslitum. Ég hef synt á hraða áður sem gefur til kynna að ég eigi að geta það svo ég er fullur af sjálfstrausti og ætla að ná öllu út úr mér. Ef ég hitti á minn dag þá er ég ekki með neinar efasemdir að ég muni ná að komast þangað.“

Ísland sendir fimm fulltrúa á mótið og Anton Sveinn er örugglega líklegastur til árangurs.

„Maður finnur alveg fyrir pressu en maður vill fara þangað til þess að skara fram úr og vera sendiherra Íslands og sýna hvers við erum megnug þótt að við séum fá.

Þetta er fámennt en góðmennt í hópnum. Það hefur verið aukin pressa frá Alþjóða Ólympíusambandinu að hækka kröfur til íþróttafólksins sem ná lágmarki svo allir sem komist inn eiga erindi.

Þetta er birtingarmynd þess að ef við ætlum að senda stóra og góða sveit sem ég veit að við getum og erum með efnivið í hérna á Íslandi þá þurfum við að styðja betur við fólkið okkar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert