Of lítið að senda fimm á Ólympíuleikana

Vésteinn Hafsteinsson á blaðamannafundi ÍSÍ í dag.
Vésteinn Hafsteinsson á blaðamannafundi ÍSÍ í dag. mbl.is/Eyþór

„Umgjörðin og fjármagnið er ekki í lagi í afreksíþróttum á Íslandi,“ sagði Vésteinn Hafsteinsson, afreksstjóri ÍSÍ á blaðamannafundi um Ólympíuhópinn í dag.

Ísland sendir fimm fulltrúa á Ólympíuleikana og Vésteinn er ekki nógu ánægður með þá þróun.

„Ekki beint svekkjandi en það er ekki nógu gott að við séum að fara með átta á leikana 2016, fjóra á leikana 2021 og fimm í ár, það er of lítið. Það eru skilaboðin til ráðamanna þjóðarinnar að við þurfum betri umgjörð og meira fjármagn og það er verið að vinna í því.

Ég er búinn að vera að vinna í því í ár á vegum mennta- og barnamálaráðuneytisins, í samvinnu við íþróttahreyfinguna, í samvinnu við þingflokka, ég er með þverpólitískan hóp í að vinna í þessu með mér. Við þurfum bara miklu meira fjármagn og betri umgjörð og þá getum við búist við því að fá miklu fleiri í framtíðinni,“ sagði Vésteinn í viðtali á mbl.is í dag.

Eygló 14. best í heimi en komst ekki á ÓL

ÍSÍ sótti um boðsæti fyrir Eygló Fanndal Sturludóttur, Valgarð Reinhardsson, Guðlaugu Eddu Hannesdóttur, Svönu Bjarnason, Hákon Þór Svavarsson og Ingibjörgu Erlu Grétarsdóttur. Af þeim fengu tvö sæti, Guðlaug og Hákon.

„Þau voru öll þessi sex sem við sóttum um númer eitt eða tvö á listanum. Svo er rosalegt flækjustig á þessu eins og með Eygló, hún er 14. besta lyftingakona í heimi í sínum flokki en Frakkarnir hafa forgang því leikarnir eru í París og það gerði það að verkum að hún komst ekki inn. Eygló ætti að vera að fara, hún er nógu góð til þess að fara.

Það voru 4-5 frjálsíþróttamenn sem hefðu alveg eins geta verið fyrir ofan línuna eins og þeir voru undir því þau voru rönkuð 36, 37 og 38, Erna var rönkuð 34 og komst inn, það eru 32 sem komast inn. 

Við gátum svo ekki sótt um fyrir bæði Thelmu Aðalsteinsdóttir og Valgarð Reinhardsson því það var mjög ólíklegt að þeir myndu taka tvo fimleikamenn sem er alveg sorglegt.“

Vésteinn er samt bjartsýnn á framtíðina og fyrir unga íþróttafólkið sem er að koma upp.

„Við erum með ansi marga sem voru nálægt því í ár og erum með fullt af efnilegu fólki sem er að koma upp sem er í kringum tvítugt sem ég býst við að geti orðið þrælgott í framtíðinni. Ég er bjartsýnn á sama tíma og ég er gagnrýninn á það að við séum bara að fara með fimm í ár, það er of lítið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert