Staðfestir ótrúlega yfirburði sína

Tadej Pogacar kemur í mark á 19. dagleið Frakklandshjólreiðanna í …
Tadej Pogacar kemur í mark á 19. dagleið Frakklandshjólreiðanna í dag og hneigir sig fyrir fjölda aðdáenda sem höfðu fjölmennt við endamarkið. AFP/Thomas Samson

Slóvenski hjólreiðamaðurinn Tadej Pogacar staðfesti í dag ótrúlega yfirburði sína yfir keppinautum sínum í Frakklandshjólreiðunum (Tour de France). Á einum erfiðasta klifurdegi keppninnar í ár skildi hann aðra eftir í reyknum og lét nokkra af sterkustu hjólreiðamönnum þessarar kynslóðar líta út fyrir að vera að keppa í unglingaflokki en ekki á hæsta þrepi keppnishjólreiða.

Með frammistöðunni í dag er hann svo gott sem kominn með alla tíu fingur á sigur í keppninni í ár.

Í dag var hjóluð 19. dagleið Frakklandshjólreiðanna í ár og eru því aðeins eftir tvær dagleiðir nú um helgina áður en heildarsigurvegarinn verður endanlega krýndur.

Pogacar hefur hins vegar drottnað yfir keppinautum sínum frá fyrsta degi og virðist ekkert annað en stórslys geta komið í veg fyrir að taki titilinn úr hönum Danans Jonas Vingegaard, síns helsta keppinautar undanfarin ár, en Vingegaard var sigurvegari Frakklandshjólreiðanna bæði í fyrra og árið áður. Þar áður hafði Pogacar tekið titilinn í tvígang og var því spurning á vörum flestra fyrir keppnina í ár hvor þeirra myndi ná sínum þriðja titli.

Gríðarlega erfið dagleið

Dagleiðin var svokölluð klifurleið eða fjallaleið. Það þýðir í raun að keppendur þurfa að hjóla upp nokkrar langar og erfiðar brekkur og ráðast úrslit heildarkeppninnar oft á þessum dagleiðum. Ekki nóg með að vera erfið dagleið, þá var einnig farið upp í yfir 2.800 metra hæð, en það var hæsti punktur Frakklandshjólreiðanna í ár og óvenjulega hátt fjallaskarð miðað við þessa keppni.

Fyrri ár hefur Vingegaard verið sterkari en Pogacar á lokadögum þessarar þriggja vikna keppni og þá hefur hann einnig notið góðs á þessum háfjalladagleiðum, meðan Pogacar hefur „brotnað“ á þeim. Pogacar hefur hins vegar átt stórkostlegt keppnisár hingað til meðan Vingegaard lenti í slæmu slysi í keppni í Baskalandi í vor. Viðbeinsbrotnaði hann og fékk gat á lunga, en var samt mættur þremur mánuðum seinna og í merkilega góðu formi.

Eins og spáð hafði verið höfðu nokkrir sterkir klifurhjólreiðamenn slitið sig frá aðalhópnum í dag og voru með nokkurra mínútna forskot fyrir síðasta klifrið, litla 16 km og 1.300 hæðarmetra með meðalhalla upp á 7,1% og kafla þar sem hallinn fer vel yfir 10%. Kom það í kjölfarið á tveimur öðrum stórum klifrum. Það fyrra var 18,8 km langt og 1.050 hæðarmetrar með 5,7% meðalhalla, en það síðara var með heilir 22,9 km og hækkun upp á 1.600 metra með 6,9% meðalhalla. Er heildarhækkun dagleiðarinnar samtals um 4.400 metrar.

Pogacar fremstur í gulu treyjunni, en á eftir honum eru …
Pogacar fremstur í gulu treyjunni, en á eftir honum eru hans helstu keppinautar, Remco Evenepoel og Jonas Vingegaard. AFP/Marco Bertoreelo

Tveir Hvannadalshnúkar og smá í viðbót

Til að setja þetta í eitthvert samhengi er Bólstaðarhlíðabrekkan á Hringveginum á milli Blönduóss og Varmahlíðar um 2,9 km að lengd með meðalhalla upp á 7%. Keppendur í dag hjóluðu því upp sem samsvarar 13,4 slíkar brekkur, að viðbættum 6,5 örlítið minna bröttum en sambærilega löngum brekkum. Jafnast heildarhækkun dagsins á við að hjóla tvisvar upp Hvanndalshnúk og að bæta við tæplega 200 metrum. Allt þetta er gert í keppni á hæsta tempói.

En allavega, að framvindu dagleiðarinnar í dag. Þeir sem höfðu slitið sig frá aðalhópnum voru með tæplega þriggja mínútna forskot á Pogacar, Vingegaard og aðra sterka hjólara fyrir lokabrekkuna. Meðal þeirra sem voru í fremsta hópi var Matteo Jorgenson, liðsfélagi Vingegaard og gríðarlega öflugur klifrari sem er mesta vonarstjarna Bandaríkjanna í hjólreiðum um þessar mundir.

Jorgenson sleit sig svo frá fremsta hópi þegar þeir höfðu hjólað um 2-3 km upp brekkuna og áttu eftir rúmlega 13 km. Virtist allt stefna í að hann gæti með þessu náð sínum fyrsta sigri í Frakklandshjólreiðunum og lang stærsta sigri á ferlinum.

Ekki hinn venjulegi keppandi 

Ljóst var að árangur Jorgenson, sem hefur verið ein helsta hjálparhella Vingegaard í keppninni hingað til, ógnaði á engan hátt stöðu Pogacar, sem var með mjög öruggt forskot í heildarkeppninni. Í slíkri stöðu hafa sigurvegarar í svona stórkeppnum frekar horft til þess að einbeita sér að því að viðhalda forskotinu í heildarkeppninni, frekar en að stressa sig á að landa líka sigrum á stökum dagleiðum.

Pogacar er hins vegar ekki hinn venjulegi keppandi og hefur undanfarin ár sýnt að hann er gríðarlega hungraður í sigur, ekki bara í heildarkeppninni, heldur líka að ná sigri á stökum dagleiðum og í styttri keppnum, meðan Vingegaard setur aðaláhersluna yfir árið á heildarkeppnina í Frakklandshjólreiðunum.

Sérkenni Frakklandshjólreiðanna og annarra stærri hjólakeppna er hversu návígi keppenda …
Sérkenni Frakklandshjólreiðanna og annarra stærri hjólakeppna er hversu návígi keppenda og aðdáenda er oft mikið, ekki síst þegar hjólað er upp langar og erfiðara brekkur. Þar flykkjast aðdéndur á hliðarlínuna og eru oft alveg upp við keppendur. AFP

Með aukagír sem aðrir hafa ekki

Pogacar gerði enda árás á Vingegaard og aðra keppinauta sína sem voru í seinni hópnum upp brekkuna. Eins og er orðin venjuleg sjón í Frakklandshjólreiðunum í ár átti enginn roð í Pogacar og gátu þeir Vingegaard og Belginn Remco Evenepoel ekki haldið í við hann. Var eins og Pogacar hefði fundið aukagír sem aðrir hefðu ekki og hreinlega skyldi þá eftir í reyknum.

Hóf hann í kjölfarið að höggva all verulega í tæplega þriggja mínútna forskot Jorgenson og náði honum svo þegar 2-3 km voru eftir. Lét hann ekki þar við sitja heldur brunaði fram úr Jorgenson og sigraði 21 sekúndu á undan Jorgenson og 1:42 á undan þeim Vingegaard og Evenepoel. Þar með er Pogacar kominn með yfir 5 mínútna forskot á Vingegaard þegar aðeins tvær dagleiðir eru eftir.

Eins og rándýr

Í ljósi þess hvernig fyrrum keppendur í heildarkeppninni hafa almennt hjólað á lokadögunum þegar þeir eru með ágætt forskot, þá verður ekki hægt að segja annað en að Pogacar sé eins og rándýr sem passi upp á að engin bráð sleppi. Það var ekki nóg fyrir hann að sigra Vingegaard, heldur fór hann í árás og hafði sigur gegn liðsfélaga hans Jorgenson þegar það leit út fyrir að Jorgenson gæti unnið dagleið. 

Dagleiðin á morgun er önnur klifurleið og ætti að henta Pogacar vel og síðasti dagurinn er tímataka í strandborginni Nice. Hefur Pogacar almennt staðið sig mjög vel á slíkum dögum og því mjög ólíklegt að hann missi þetta forskot sitt niður. Hefur enda forskot í Frakklandshjólreiðunum sjaldan eða aldrei verið jafn mikið fyrir síðustu tvo dagana og má því tala um óheyrða yfirburði.

Tadej Pogacar hefur átt draumatímabilið í ár og það stefnir …
Tadej Pogacar hefur átt draumatímabilið í ár og það stefnir í að hann taki sigur í annarri stórkeppni ársins (e. Grand tour) með sigri í Frakklandshjólreiðunum um helgina. AFP/Anne-Christine Poujoulat

Virðist ekki einu sinni vera á þolmörkum

Ekki nóg með að Pogacar sé á góðri leið að taka Frakklandshjólreiðarnar, þá tók hann einnig heildarsigurinn í Ítalíuhjólreiðunum, þriggja vikna keppni í maí á Ítalíu, en það er næst stærsta keppni ársins. Voru yfirburðir hans þar einnig fáheyrðir, en hann var tæplega 10 mínútum á undan næsta manni og virtist hann ekki einu sinni vera að reyna alveg á sig.

Svipaða sögu hefur verið að segja frá Frakklandshjólreiðunum. Þótt Pogacar hafi gefið vel í á köflum virðist hann ekki hafa farið alveg að þolmörkum sínum, heldur hafa átt aukalega inni þrátt fyrir að valta yfir samkeppnina. Hefur hann enda verið í gulu treyjunni (sá sem er fremstur í heildarkeppninni klæðist gulri treyju) frá fjórðu dagleið og ekki verið neinn séns á að annar tæki treyjuna af honum síðan þá.

Ótrúleg tölfræði

Eins og fyrr segir stefnir allt í að Pogacar taki sinn þriðja titil í Frakklandshjólreiðunum, en ekki nóg með það, hann hefur nú þegar unnið fjórar dagleiðir í keppninni í ár og sex dagleiðir í Ítalíuhjólreiðunum. Þar með hefur hann tekið 10 dagleiðir í það heila í þriggja vikna keppnum (e. Grand tours) á árinu og er það meira en nokkur annar í sögunni.

Með tíu dagleiðum hefur hefur hann einnig unnið fjórðu hverju dagleið í þessum stóru þriggja vikna keppnum það sem af er árinu, en það er hreint út sagt ótrúleg tölfræði.

Til þriggja vikna keppna tilheyra einnig Spánarhjólreiðarnar sem fara fram í ágúst. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert