„Ég er komin í þýskt lið sem heitir Germania Obrigheimer. Þaðan var haft samband við mig í vor og ég spurð hvort ég hefði áhuga á að koma í liðið og keppa fyrir þess hönd næsta keppnisár,“ segir Eygló Fanndal Sturludóttir, margverðlaunuð afrekskona í ólympískum lyftingum sem var aðeins hársbreidd frá því að öðlast þátttökurétt á Ólympíuleikunum sem innan skamms hefjast í frönsku höfuðborginni París.
Morgunblaðið greindi frá göngu Eyglóar til liðs við Obrigheimer í gær og þótti ekki annað tækt en að fá hana til að segja mbl.is nánar frá þessu nýja þýska skrefi á ferli hennar auk þátttöku hennar í virtu þýsku boðsmóti nú nýverið sem á sér ævafornar rætur – að minnsta kosti á mælikvarða lyftinga.
„Mér skilst að Obrigheimer sé núverandi sigurvegari í Bundesliga-deildinni og þetta er mjög flott lið með margt öflugt lyftingafólk innbyrðis. Það er mikill heiður að liðið hafi samband við mig og vilji fá mig til keppni,“ segir Eygló sem í haust sest á fjórða ár í læknisfræði við Háskóla Íslands.
Aðspurð kveður hún það ekki skilyrði að hún skarti þýskum ríkisborgararétti til að fá að keppa í Bundesliga sem er þýsk landskeppni milli fylkja landsins. „Liðið hefur leyfi til að hafa erlenda lyftara og þar eru núna átta lyftarar sem ekki eru þýskir. Þetta virkar þannig að haft er samband við fólk fyrir hvert mót og það spurt hvort það hafi tök á að koma,“ útskýrir Eygló.
Þannig skjótist hún bara út og keppi á mótum þegar það henti miðað við hennar dagskrá sem þegar er þéttskipuð en eins og alkunna er virðist afreksfólk í íþróttum jafnan slungið við að skipuleggja tíma sinn og koma fleiri stundum inn í sólarhringinn. Keppnin í Bundesliga á vettvangi ólympískra lyftinga er hins vegar alls ekki hefðbundin eins og nánar kemur fram síðar í viðtalinu.
„Liðið greiðir ferðakostnað og uppihald meðan á ferð stendur og greiðir auk þess laun út frá því hve miklu maður lyftir,“ segir Eygló frá en þetta síðasta segir hún reiknað út frá þyngd viðkomandi keppanda og því sem hann lyftir. Út frá því sé reiknaður ákveðinn stigafjöldi og sýni þá tafla, útfærð af þýskri reglusemi og nákvæmni, hvað hver þátttakandi fái greitt fyrir átökin.
„Mér finnst líklegt að þetta verði kannski tvær til þrjár keppnir á önn, haustönn og vorönn, og mjög þægilegt þar sem flugið er ekki langt og mótin alltaf um helgar svo maður getur farið út rétt fyrir helgi, komið heim á sunnudegi og mætt í skólann á mánudegi,“ segir Eygló af einurð hins agaða íþróttamanns.
Mótið sem Eygló var að koma af núna er sem fyrr segir „ævafornt“, hóf göngu sína í Dresden árið 1971 sem telst fornt í sögu skipulagðra keppnislyftina. Gengur það undir hinu virðulega heiti „Pokal der Blauen Schwerter“ eða Mót hinna bláu sverða, nokkuð sem teljast verður mjög óhefðbundið heiti á lyftingamóti.
Náði Eygló þar þeim eftirtektarverða árangri að vera í fimmta sæti af 28 kvenkyns keppendum, óháð þyngdarflokkum, en mótið er stigamót eingöngu þar sem allir keppendur af hvoru kyni keppa á móti öllum. Sérstök reikniformúla býður svo upp á að kynin geti att kappi sín á milli.
Þær fjórar sem ofar lentu í kvennaflokki sitja allar í efstu tíu sætum heimslistans og munu því keppa á Ólympíuleikunum. Þar er Eygló í tólfta sæti og mátti því litlu muna að hún stigi á keppnispallinn í París í ágúst. Á blásverðamótinu setti hún Íslandsmet í jafnhendingu (e. clean and jerk) þegar hún lyfti 133 kílógrömmum en í snörun lyfti hún 103.
Forsaga þátttöku Eyglóar er í raun annar vottur um formlegheitin að baki blásverðamótinu eins og hún greinir frá. „Þetta er þannig að á alþjóðlegum mótum yfir árið er nokkrum keppendum boðið að koma og taka þátt. Ég fékk mitt boð á HM í Sádi-Arabíu síðasta haust. Þá var mér afhent umslag með formlegu boðsbréfi til þátttöku og um leið spurt hvort ég hefði áhuga,“ segir hún frá.
„Ég hafði ekki hugmynd um að þetta mót væri til og vissi ekkert um söguna og flottheitin á bak við það. Svo segir þjálfarinn minn mér að þetta sé rosalega flott mót og mikill heiður að vera boðið svo við ákváðum að skella okkur,“ heldur Eygló áfram og bætir því við að sú ákvörðun hafi verið góð.
„Þetta var mjög skemmtilegt og það var líka bara gott fyrir mig að taka eitt mót þar sem er ekki svona rosalega mikið stress eins og var í ólympíuúrtökuferlinu.“
Bundesliga-keppnin sem fram undan liggur – og Eygló var boðið til í vor – er með mun óhefðbundnara sniði en hin almennu mót þar sem keppnismenn og -konur í ólympískum lyftingum takast á um hver uppi stendur með mestu þyngdina í sínum þyngdarflokki.
„Þetta er útsláttarkeppni þar sem tvö lið mætast en þetta er stemmning og „show“,“ segir lyftingafraukan og læknaneminn frá, „fólk borgar sig inn og borðar kvöldverð með víni á meðan við erum uppi á sviði að lyfta með reykvélum og fagnaðarlátum úr sal og mér skilst að mjög vel sé mætt á þetta,“ segir Eygló af óhefðbundnum þýskum lyftingaheimi sem ýmist býður kvöldverðarskemmtun uppi á sviði eða gömul heiðursmót kennd við blá sverð. Hvern hefði grunað að óreyndu?
Eygló er nú stödd á síðasta ári í U-23 aldursflokknum og stefnir á Evrópumót þar í október auk þess sem um svipað leyti má búast við fyrstu Bundesliga-keppninni þar sem keppnisárið hefst að haustlagi. Ofan á þetta tvennt er svo Norðurlandamót og í desember sjálft heimsmeistaramótið. Stíf dagskrá fram undan samhliða krefjandi læknisfræðunum en þá er líka bót í máli að Eygló fær orðið greitt fyrir átökin.
Þannig að þú ert atvinnumanneskja?
„Já, það má segja það, maður er aðeins farinn að hafa tekjur af þessu,“ segir Eygló sem aðspurð kveðst ekki fullkomlega inni í því hvað þurfi til að komast á þann stað í lífinu. „Það er örugglega bara alþjóðlegur árangur og einmitt að hafa verið í þeirri stöðu að vera í hópnum sem keppti um sæti til að komast á Ólympíuleikana,“ segir Eygló sem kveðst í framhjáhlaupi vonast til að áætlað launakerfi Íþrótta- og ólympíusambands Íslands muni ganga eftir.
„Það er planið fyrir næsta ár og ef maður kæmist inn í það myndi það breyta öllu,“ segir hún, en úrtökumótin fyrir Ólympíuleikana voru sjö og farsælustu tíu keppendur þar öðlast hinn eftirsótta keppnisrétt. „Ég var tveimur sætum og tveimur kílóum frá því að komast á Ólympíuleikana,“ segir Eygló sem lætur sér fátt fyrir brjósti brenna og stefnir hiklaust á leikana 2028.
Hvernig gengur að samhæfa námið, núna þegar þú ert komin svona langt í læknisfræðinni, og svona umfangsmiklar æfingar?
„Það gengur mjög vel, skólinn er alltaf tilbúinn að hjálpa og ég vona að það muni halda áfram. Ég verð auðvitað aðeins meira á flakki núna þegar ég er komin í Bundesliguna en ég vona að skólinn geti komið til móts við mann. Annars er þetta bara forgangsröðun, að ákveða hvað maður vill verja tíma sínum í og láta það ganga upp. Þá virkar þetta,“ segir Eygló Fanndal Sturludóttir, læknanemi og keppniskona í ólympískum lyftingum á heimsmælikvarða – alla vega í tólfta sæti heimslistans.
Eftirtektarverður árangur Eyglóar á mótum síðustu misseri:
Pokal der Blauen Schwerter í júlí
103 kg í snörun og 133 í jafnhendingu (Íslandsmet – bæting frá í apríl).
World Cup í Taílandi í apríl
106 kg í snörun (Íslands- og Norðurlandamet), 130 kg í jafnhendingu (Íslandsmet) og 236 kg í samanlögðu (Íslandsmet). Mótið skilaði Eygló í 12. sætið á heimslista fyrir ÓL.
Evrópumeistaramótið í Búlgaríu í febrúar
105 kg í snörun og 125 kg í jafnhendingu, 4. sæti í -71 kg flokki og þar með besti árangur Íslendings á EM fullorðinna.
Grand Prix II í Katar í desember 2023
104 kg í snörun og 127 kg í jafnhendingu.