Fimm systkini á sama Evrópumótinu

Systkinin fimm í Malmö.
Systkinin fimm í Malmö. Ljósmynd/Ettu.org

Fimm íslensk systkini hafa vakið athygli á Evrópumeistaramóti unglinga í Malmö í Svíþjóð en þau eiga það öll sameiginlegt að hafa keppt fyrir Íslands hönd á mótinu.

Guðbjörg Vala Gunnarsdóttir og Eiríkur Logi Gunnarsson kepptu á mótinu og bróðir þeirra, Pétur Gunnarsson, var þjálfari hjá íslenska liðinu.

Bræður þeirra, Skúli og Gestur, voru mættir til að styðja systkini sín en þeir hafa eins og Pétur áður tekið þátt í Evrópumeistaramótinu.

Nánar á vef evrópska borðtennissambandsins þar sem því er velt upp hvort um met geti verið að ræða, að fimm systkini hafi tekið þátt í og unnið leiki á Evrópumóti unglinga.

Þess má geta að faðir þeirra, Gunnar Skúlason, gerði það gott á árum áður sem leikmaður með KR í knattspyrnunni en hann lék 102 leiki með KR í efstu deild á árunum 1986 til 1993.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert