Tadej Pogacar frá Slóveníu, sem um helgina vann Frakklandshjólreiðarnar, Tour de France, í þriðja sinn á fimm árum, keppir ekki á Ólympíuleikunum í París sem hefjast á föstudaginn.
Slóvenska ólympíunefndin tilkynnti þetta fyrir stundu en fyrr í dag höfðu borist fréttir um að Pogacar hygðist sleppa Ólympíuleikunum vegna þreytu eftir hinar löngu og ströngu Frakklandshjólreiðar.
Heimsmeistaramótið fer fram í Sviss í september og reiknað er með að Pogacar einbeiti sér nú að undirbúningi fyrir það.
Pogacar hefur unnið til verðlauna á Ólympíuleikum en hann hlaut bronsverðlaun í götukeppninni á leikunum í Tókíó árið 2021.