Tanja nýr framkvæmdastjóri Breiðabliks

Tanja Tómasdóttir, framkvæmdastjóri Breiðabliks.
Tanja Tómasdóttir, framkvæmdastjóri Breiðabliks. Ljósmynd/Breiðablik

Tanja Tómasdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Breiðabliks. Tanja tekur við starfinu af Eysteini Pétri Lárussyni sem tekur við framkvæmdastjórastöðu Knattspyrnusambands Íslands.

Breiðablik tilkynnti um ráðningu Tönju í dag en Tanja er lögfræðingur að mennt og hefur starfað sem umboðsmaður knattspyrnumanna, fyrir Leikmannasamtökin ásamt ýmsum störfum fyrir KSÍ og ÍSÍ svo fátt eitt sé nefnt.

Tilkynning Breiðabliks:

Breiðablik hefur ráðið Tönju Tómasdóttur í starf framkvæmdastjóra félagsins. Tanja er lögfræðingur að mennt og hefur undanfarin misseri stundað nám við forystu og stjórnun samhliða vinnu. Tanja kemur frá TM tryggingum þar sem hún hefur starfað frá 2016 m.a. við lögfræðiþjónustu og viðskiptaþróun. Tanja hlaut réttindi sem umboðsmaður knattspyrnumanna árið 2014 fyrst íslenskra kvenna og hefur unnið félagsstörf á vegum íþróttahreyfingarinnar t.d. verið í stjórn Leikmannasamtaka Íslands, varamaður í samninga- og félagaskiptanefnd KSÍ og var kjörin dómari í dómstól ÍSÍ árið 2023.

Ásgeir Baldurs, formaður Breiðabliks:

„Það er mikill fengur að hafa fengið Tönju til starfa fyrir félagið. Menntun hennar, metnaður og fjölbreytt reynsla mun nýtast félaginu vel  en auk þess býr hún yfir öflugri samskiptahæfni sem gerir hana að kröftugum fulltrúa félagsins. Metnaður Tönju á íþróttastarfi er eftirtektarverður, hún var fyrst íslenskra kvenna til að afla sér réttinda sem umboðsmaður knattspyrnumanna, hún hefur stundað fræðiskrif um samspil íþrótta og lögfræði og látið sér félagsstörf íþróttahreyfingarinnar varða. Framtíðarsýn og metnaður Tönju fyrir Breiðablik er í samræmi við sýn aðalstjórnar og höfum við miklar væntingar til samstarfsins.

Fyrir hönd aðalstjórnar vil ég þakka fráfarandi framkvæmdastjóra, Eysteini Pétri fyrir hans mikilvæga framlag til Breiðabliks sl. ellefu ár og velfarnaðar í nýju starfi. Það er óhætt að segja að félagið hafi tekið stakkaskiptum undir hans stjórn og samstarfið hefur verið einstakt.“

Tanja Tómasdóttir:

„Það er mér mikill heiður að ganga til liðs við Breiðablik og starfa með því öfluga fólki sem kemur að öllum deildum félagsins. Íþróttir eru mitt aðaláhugamál og hefur það alltaf verið ákveðinn draumur að starfa á því sviði. Ég er því spennt að takast á við þau verkefni sem felast í áframhaldandi uppbyggingu og sókn þessa frábæra félags.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert