Ég er stolt af að hafa komist á þennan stað

Guðlaug Edda Hannesdóttir við ána Signu í gær, þar sem …
Guðlaug Edda Hannesdóttir við ána Signu í gær, þar sem sundið í þríþrautinni á að fara fram, en þar var þá bannað að synda. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðlaug Edda Hannesdóttir, fremsta þríþrautarkona landsins, er mætt til Parísar á sína fyrstu Ólympíuleika. Edda, eins og hún er kölluð, verður á morgun fyrsti Íslendingurinn til að keppa í þríþraut á Ólympíuleikum. Í þríþraut eru syntir 1.500 metrar og hjólaðir 40 kílómetrar áður en keppni lýkur með 10 kílómetra hlaupi.

„Það er mjög skemmtilegt að vera loksins komin hingað. Þetta er búin að vera löng og erfið vegferð en ég er mjög stolt af því að vera hérna og vera hluti af íslenska liðinu. Þetta er mjög einstakt,“ sagði Edda við Morgunblaðið í París.

Í þorpinu býr allt íþróttafólkið og nánasta fylgdarlið þess saman meðan á leikunum stendur. Það getur því verið ansi líflegt.

Mikil orka í þorpinu

„Ég vissi að þorpið yrði svolítið ákaft, það er mikið af íþróttafólki hérna og mikil orka. Að koma hingað og upplifa það er eiginlega yfirþyrmandi á góðan hátt. Maður þarf að læra inn á allt og finna taktinn á hverjum degi. Um leið og það kemur ræður maður betur við þetta,“ útskýrði Edda.

Hún hefur lengi horft til Ólympíuleikanna í París, en þurft að glíma við ýmsar hindranir. Þrálát mjaðmameiðsli hafa m.a. gert henni erfitt fyrir. Nú er hún komin á fullt á ný og ætlar sér stærri hluti.

„Fyrir um það bil þremur árum hafði ég hugmynd um hvernig vegferðin yrði en svo hefur þetta þróast öðruvísi en ég vonaðist til. Ég er mjög meyr og stolt en á sama tíma reyni ég að sýna mér mildi og minna mig á að þetta er bara eitt skref, en ekki endastöð. Vonandi er þetta skref í áttina að einhverju stærra,“ sagði hún.

Löng og erfið meiðsli

Hún keppti á sínu fyrsta móti í rúmt ár í mars á þessu ári. Aðeins fjórum mánuðum síðar er hún að keppa á langstærsta móti ferilsins, sjálfum Ólympíuleikunum.

„Ég veit að ég er ekki algjörlega í mínu besta líkamlega formi, þótt ég sé sterk andlega og hafi gert mitt besta í undirbúningnum fyrir þessa leika eftir löng og erfið meiðsli. Ég er mjög stolt af því að vera hérna og mig langar ofboðslega mikið að eiga góða keppni. Vonandi heillast Íslendingar af þríþraut.“

Ferðalag Eddu hefur verið langt og strangt, í íþrótt sem fæstir Íslendingar þekktu þegar vegferðin hófst. Það bjó til hindranir sem þurfti að klífa yfir.

Viðtalið í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert