Anníe Mist: Íþróttin sem við elskum brást Lazar

Lazar Ðukic lést í síðustu viku.
Lazar Ðukic lést í síðustu viku. Ljósmynd/Instagram-síða heimsleikanna í Crossfit

Anníe Mist Þórisdóttir, ein fremsta crossfitkona Íslands, minnist Serbans Lazar Ðukic, sem drukknaði við keppni á heimsleikunum í Texas í Bandaríkjunum í síðustu viku, á Instagram-aðgangi sínum.

„Ég hef reynt að skrifa þetta í þrjá daga núna og það með brostnu hjarta. Það er svo margt fleira sem þarf að segja.

Það er svo mikið af hugsunum og tilfinningum en samt ná engin orð utan um hvernig mér líður og hvað mig langar að segja. Ég er með brostið hjarta, sár og reið.

Ég þekkti Lazar frá kynnum okkar á Evrópuleikunum og orka hans og gleði var svo smitandi. Hann átti eftir að upplifa svo margt í lífinu,“ skrifaði Anníe Mist um Ðukic, sem var 28 ára gamall.

Anníe Mist Þórisdóttir.
Anníe Mist Þórisdóttir. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hún bætti því við að ljóst væri að eitthvað hafi farið hrapallega úrskeiðis sem olli því að Ðukic hafi ekki fengið þá hjálp sem hann þurfti er Serbinn synti í Marine Creek-ánni.

Enginn til þess að grípa Lazar

Ðukic, sem var einn fremsti crossfitkarl heims, átti erfitt með sundtök þegar hann átti um 100 metra eftir af sundhluta heimsleikanna í síðustu viku og fannst lík hans svo í ánni nokkrum klukkustundum eftir að tilkynnt var að Ðukic væri leitað.

„Ég hef brotnað saman mörgum sinnum yfir helgina vitandi það að hann verður ekki framar okkur við hlið eða í örmum ástvina sinna.

Oft hef ég staðið við ráslínuna og verið hrædd um það sem koma skal, segjandi við sjálfa mig: „Þetta er einungis tímabundið, hvaða sársauki sem ég finn fyrir er einungis tímabundinn.“

Ég hef fundið fyrir ró vitandi það að jafnvel þó ég færi mér um of myndi einhver vera til staðar til þess að grípa mig. Það var enginn til þess að grípa Lazar. Íþróttin sem við elskum öll brást Lazar og fjölskyldu hans.

Mér þykir þetta svo leitt Lazar. Ég bið fyrir fjölskyldu hans og vinum á þessum óhugsandi tímum,“ skrifaði Anníe Mist einnig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert