Rökuðu inn verðlaunum á NM

Stefanía Daney Guðmundsdóttir vann til fjögurra gullverðlauna um helgina.
Stefanía Daney Guðmundsdóttir vann til fjögurra gullverðlauna um helgina. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Norðurlandameistaramót í frjálsum íþróttum fatlaðra fór fram dagana 10. – 11. ágúst í Bollnäs í Svíþjóð þar sem tólf keppendur frá Íslandi tóku þátt og unnu til fjölda verðlauna.

Samtals unnu íslensku keppendurnir til níu gullverðlauna, sex silfurverðlauna og fimm bronsverðlauna.

Stefanía Daney Guðmundsdóttir vann flest gullverðlaun allra á mótinu, fjögur alls, og ein silfurverðlaun. Fékk hún þá ein verðlaun til viðbótar, fyrir að vinna flest gullverðlaun.

Stefanía Daney hrósaði sigri í 100 og 200 metra hlaupi, langstökki og spjótkasti og vann til silfurverðlauna í boðhlaupi.

Emil Steinar Björnsson vann til tvennra gullverðlauna, í kúluvarpi og kringlukasti, og vann til silfurverðlauna í spjótkasti.

Michel Thor Masseltar vann gull í 1.500 metra hlaupi og brons í 800 metra hlaupi.

Vann gull fyrir París

Ingeborg Eide Garðarsdóttir, sem er á leið á Paralympics í París í lok mánaðarins, vann gullverðlaun í kúluvarpi.

Karen Guðmundsdóttir hlaut silfurverðlaun í spjótkasti og brons í bæði langstökki og boðhlaupi.

Aníta Ósk Hrafnsdóttir vann til tvennra silfurverðlauna, í 1.500 og 5.000 metra hlaupi, auk bronsverðlauna í kringlukasti.

Anna Karen Jafetsdóttir vann þá til silfurverðlauna í 400 metra hlaupi, Alexander Már Bjarnþórsson vann brons í 100 metra hlaupi og boðhlaupi og Daníel Smári Hafþórsson vann bronsverðlaun í boðhlaupi.

Þrjú Íslandsmet slegin

Þrjú Íslandsmet voru slegin um helgina. Það gerði Aníta Ósk Hrafnsdóttir þegar hún kom í mark í 5.000 metra hlaupi á tímanum 27:20,15, Alexander Már Bjarnþórsson þegar hann kom í mark í 100 metra hlaupi á tímanum 12,23 sek og boðhlaupssveit Íslands í 4x100m hlaupi þegar þau komu í mark á tímanum 55,19 sek.

Í boðhlaupssveitinni voru þau Alexander Már, Karen, Daniel Smári og Stefanía Daney.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert