Formaður KR: „Maður fær eiginlega sjokk“

Þórhildur Garðarsdóttir er formaður KR.
Þórhildur Garðarsdóttir er formaður KR. Ljósmynd/Aðsend, mbl.is/Sigurður Bogi

Gervigrasvelli Knattspyrnufélags Reykjavíkur hefur verið lokað af öryggisástæðum. Miklar skemmdir eru á vellinum og vonast félagið til þess að verktaki og Reykjavíkurborg leggist á eitt og lagi völlinn sem fyrst.

Kvartað hefur verið undan lélegum vinnubrögðum síðan nýtt gervigras var lagt á völlinn. Um eina gervigrasvöll félagsins er að ræða. Formaður KR segir stöðuna óboðlega. 

Búið að vera vandamál síðan það var lagt

„Það veldur því að við erum að gera þetta núna er að á laugardaginn var átti að fara fram leikur KV. Dómari leiksins metur grasið óhæft, að það sé slysagildra, og neitar að láta spila leikinn þar,“ segir Þórhildur Garðarsdóttir, formaður KR, í samtali við mbl.is

„Þetta gras er náttúrulega búið að vera vandamál síðan það var lagt. Fyrir 18 mánuðum síðan var klárað að leggja það. Við létum Reykjavíkurborg strax vita af því að það væri ekki í lagi með grasið, það væru hólar á því, það væri illa saumað. Eftirlitsaðilinn kom og kíkti á það, sem er sami aðili og lagði grasið. Þeir sögðust fara í einhverjar úrbætur, eða sögðu að þeir hefðu gert eitthvað, en við sáum ekki mun á þessu. Við létum Reykjavíkurborg strax vita af því aftur, að þetta væri ekki nóg, það væru þarna hólar, þetta væri illa saumað. Síðan þá hefur þetta bara versnað,“ segir Þórhildur. 

Holótt, gloppótt og gliðnandi gras 

„Síðasta sumar fengum við athugasemd frá dómara eftir leik, að grasið væri óhæft og mikil slysagildra en hann stoppaði samt sem áður ekki leikinn sem fram fór. Við náttúrulega erum búin að nota grasið síðan og það hefur eðlilega bara versnað. Maður veit að þetta er bara eins og með saumsprettu, þegar það er alltaf verið að reita í hana þá gliðnar hún enn þá meira. 

Í dag er ástandið orðið þannig að það er holótt, grasið er farið víða, það er allt að þriggja sentímetra gliðnun á því, það eru lausir endar og bönd sem er hægt að flækjast í. Við bara mátum það sem svo að þegar dómari er búinn að segja að hann telji að meistaraflokkur megi ekki spila á þessu að við getum ekki boðið börnunum okkar upp á þetta heldur.“

Miklar skemmdir má sjá á vellinum.
Miklar skemmdir má sjá á vellinum. Ljósmynd/Aðsend

Eini völlurinn 9 mánuði á ári

Hver eru næstu skref hjá KR, hvað er hægt að gera?

„Þetta er náttúrulega eini gervigrasvöllurinn okkar. Við höfum núna 4 til 6 vikur þar sem við getum nýtt grasvellina áður en að það verður bara orðið erfitt út af vetrinum. Við erum að vonast til þess að Reykjavíkurborg og verktakinn sinni þessu viðhaldi og sinni því. Það getur ekki annað verið en að þetta sé ábyrgðarmál, að þau bregðist hratt við og bjargi okkur fyrir horn þannig að við getum farið í gang með haustæfingar og vetraræfingar. Ef ekkert verður gert þá getum við þess vegna bara lagt niður fótboltann hjá okkur úti.

Þetta er eini gervigrasvöllurinn okkar, við erum að keyra á þessum eina gervigrasvelli alfarið níu mánuði á ári. Á sumrin getum við dreift meira álaginu en þetta er náttúrulega bara svakalegt ástand og við erum að vonast eftir skjótum viðbrögðum,“ segir Þórhildur, en félagið hafi látið Reykjavíkurborg vita af fyrirhugaðri lokun í gær. 

„Þau sögðu að þau séu í samtali við verktaka og eftirlitsaðila. Þar er verið að bíða eftir, að mér skilst, óháðri úttekt og við erum bara að vona að þetta gerist hratt.“

Gras vantar víða.
Gras vantar víða. Ljósmynd/Aðsend

„Þegar stórt er spurt þá verður fátt um svör“

Spurð hvernig standi á þessum vandræðum fyrst það hafi verið augljóst að völlurinn hafi ekki verið í lagi frá upphafi segir hún félagið ekki skilja hvers vegna svona sé í pottinn búið. 

„Ja, þegar stórt er spurt þá verður fátt um svör. Við skiljum þetta ekki af því að við erum búin að senda ítrekaða tölvupósta, við vitum líka að foreldrar hafa sent ábendingar inn á vef Reykjavíkurborgar. Þannig að þeir hafa sannarlega vitað af þessu, það hefur ekki getað farið fram hjá þeim síðustu 18 mánuði að það er ekki í lagi. 

Að labba þarna út á grasið, það er bara svakalegt, maður fær eiginlega bara sjokk, maður trúir því eiginlega ekki að þetta sé orðið svona slæmt,“ segir Þórhildur. 

Skipt hafi verið um grasið sem áður var á vellinum vegna þess að það var úr sér gengið. 

Sjö til átta hundruð krakkar og þrír meistaraflokkar

„Það er náttúrulega meira álag á grasinu hjá okkur vegna þess að við erum bara með einn völl og á þeim eru sjö til átta hundruð krakkar og þrír meistaraflokkar að æfa og spila níu mánuði ársins. Og svo hluti af þessum hópi hina mánuðina. Þannig að það er meira álag heldur en er hjá öðrum félögum sem eru með tvo til þrjá gervigrasvelli, það segir sig sjálft. En að völlurinn sé í dag orðinn eins og hann lítur út er ekki hægt að kenna álagi um.“

Þórhildur segir verk við gervigrasið sem nú sé á vellinum hafa hafist í nóvember árið 2022 og því ekki lokið fyrr en í febrúar 2023. 

„Við lentum náttúrulega í vandræðum vegna þess að þeir segja að það hefði verið komin krafa frá KR að drífa þetta af. Þeir tóku náttúrulega mottuna af í nóvember, síðan kom þriggja vikna pása hjá þeim þar sem þeir gerðu ekki neitt því þeir fóru í annað verk. Á þessu þriggja vikna tímabili var mjög gott veður, svo mættu þeir aftur, þá var kominn 17. eða 19. desember, þá var veðrið orðið mjög leiðinlegt og svo tók þetta janúar og febrúar. Þannig að krakkarnir hjá okkur gátu ekki æft á vellinum þarna í þrjá mánuði og við getum ekki boðið krökkunum upp á það í annað sinn á tveimur árum.“

Hver er framtíð knattspyrnudeildarinnar ef ekkert er lagfært?

Hvað gerist hjá knattspyrnudeildinni ef það er ekki hægt að leysa þetta á þeim sex vikum sem þið hafið upp á að hlaupa með grasvöllinn?

„Við erum bara ekki komin svona langt, við höldum enn þá í þeirri von að þetta verði lagað. Við vitum af því að það var verið að leggja á heimavelli HK í Kórnum, það tók tvær vikur –Þannig þetta á að vera hægt. Við bara vonum það besta,“ segir Þórhildur.

Þyrfti ekki að líta á það að KR sé bara með einn gervigrasvöll, að það þurfi varaaðstöðu?

„Það er náttúrulega bara, eins og það er alls staðar í kringum okkur, mig langar að segja, hjá öllum öðrum félögum, að þá eru allavega tveir gervigrasvellir. Þá er hægt að stýra álaginu miklu betur og endingin á grasinu verður mikið betri þannig að auðvitað er þetta eitthvað sem þarf að skoða,“ segir Þórhildur. Komið hafi til tals að fá gervigras á aðalvöllinn en það hafi ekki farið lengra. 

Meiðsl fylgi lélegum völlum

Þá minnist hún á að slæmri aðstöðu geti fylgt fleiri meiðsl. 

„Það hafa orðið alvarleg slys þarna á vellinum. Við erum ekki mikið að auglýsa það, því það er mjög leiðinlegt en þetta er náttúrulega bara ekkert boðlegt. Það hafa verið þarna krossbandaslit, þau eru víst mjög algeng þegar vellirnir eru ekki í lagi,“ segir Þórhildur. Hún nefnir einnig að beinbrot hafi átt sér stað því fólk hafi flækt sig í völlinn. 

„Þannig þetta er bara hreint ekki í lagi og það var ekki annað í stöðunni heldur en að loka. Það er ekki hægt að segja að meistaraflokkarnir megi ekki æfa þarna en annar flokkur, komiði. Það er ekki hægt,“ segir Þórhildur að lokum. 

Mikil slysahætta hefur myndast.
Mikil slysahætta hefur myndast. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert