Hætti í rúmt ár en fer til Parísar

Már Gunnarsson.
Már Gunnarsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sundmaðurinn Már Gunnarsson er á leið á sína aðra Paralympics-leika í lok mánaðarins. Hann heldur ásamt íslenska teyminu til Parísar 24. ágúst næstkomandi og keppir svo í 100 metra baksundi í S11, flokki blindra, hinn 1. september.

„Þetta er ótrúlegt ferðalag sem maður tekst á hendur við þegar maður ákveður að gera þetta aftur. Það er stutt á milli þessara leika og þeirra síðustu, bara þrjú ár.

Ég hætti eftir síðustu Paralympics,“ sagði Már í samtali við Morgunblaðið er íslenski hópurinn sem fer á leikana, sem samanstendur af fimm keppendum, var kynntur í Toyota í Kauptúni í síðustu viku.

Már keppti á Paralympics í Tókýó árið 2021, þar sem hann komst í úrslit í 100 metra baksundi og hafnaði í fimmta sæti. Sama ár setti hann heimsmet í 200 metra baksundi í S11-flokki.

Tók sér hlé í rúmt ár

Ári síðar ákvað Már að hætta í sundi til þess að einbeita sér að tónlistarferlinum en þá hafði hann fengið inni í breskum tónlistarskóla, Academy of Contemporary Music í Guildford, og hóf nám í honum haustið 2022.

Már skipti svo yfir í hinn virta tónlistarháskóla Royal Northern College of Music í Manchester ári síðar og hóf þá að æfa sund að nýju.

„Ég tók mér alveg rúmt ár þar sem ég var ekki að æfa aktíft sund. Ég mætti alveg á sundæfingar af og til. Ég var mjög duglegur að halda mér við í ræktinni og byggja upp vöðvamassa.

Síðan flutti ég til Bretlands og þegar ég fór í háskólanám ákvað ég að byrja aftur að æfa sund með liði þarna úti. Ég er rosalega ánægður með að hafa gert það. Það kom mér smá á óvart hvað ég var í rauninni ferskur eftir þetta hlé,“ sagði hann.

Viðtalið við Má er í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert