Sara Sigmundsdóttir, ein fremsta crossfitkona Íslands, er sorgmædd og reið yfir fráfalli Serbans Lazar Ðukic, sem drukknaði við keppni á heimsleikunum í Texas í síðustu viku.
„Hugur minn leitar í sífellu til þess sem gerðist í raun og veru. Af hverju honum var ekki hjálpað. Hvernig gat þessi harmleikur einu sinni átt sér stað?
Það gerir mig svo reiða að hugsa til þess að maður þarf að týna lífinu svo farið sé að huga að breytingum og þær gerðar. Ég hef keppt í þessari íþrótt í svo mörg skipti og hef tekið þátt í greinum sem ég hef verið dauðhrædd við,“ skrifaði Sara á Instagram-síðu sinni.
Hún hélt áfram:
„Ég hef ávallt róað sjálfa mig niður með því að gera ráð fyrir því að ef eitthvað kæmi fyrir mig væri ég í öruggum höndum.
Að einhver myndi sjá það og hjálpa mér. Þessi harmleikur hefur sýnt fram á það að svo er ekki.
Lazar, hæfileikar þínir, nærvera, samkeppnishæfni og orka snerti við mér og öllum öðrum. Þér verður aldrei gleymt. Þú verður ávallt hluti af okkur í crossfit-samfélaginu og við munum sakna þín sárt.“