Katrín Tanja: Á okkur hefur ekki verið hlustað

Lazar Ðukic drukknaði við keppni.
Lazar Ðukic drukknaði við keppni. Ljósmynd/Instagram-síða heimsleikanna í Crossfit

Katrín Tanja Davíðsdóttir, ein fremsta crossfitkona landsins, tekur í sama streng og kollegar sínir Sara Sigmundsdóttir og Anníe Mist Þórisdóttir og gagnrýnir skipuleggjendur heimsleikanna í CrossFit harðlega eftir að Serbinn Lazar Ðukic drukknaði við keppni í síðustu viku.

„Ég er orðlaus eftir sorglegan atburð síðustu helgar. Fréttirnar af fráfalli Lazar Ðukic er hann var við keppni á heimsleikunum í CrossFit eru skelfilegar og hef ég átt í erfiðleikum með að koma því í orð undanfarna daga hversu sorgmædd og svekkt ég er.

Mér þykir svo leitt hvað gerðist. Það er óskiljanlegt að við höfum misst Lazar og ég trúi því ekki að þetta sé veruleikinn sem við þurfum að horfast í augu við,“ skrifaði Katrín Tanja á Instagram-síðu sinni fyrr í vikunni.

Katrín Tanja Davíðsdóttir.
Katrín Tanja Davíðsdóttir. Ljósmynd/Instagram

Viðvaranir voru hunsaðar

Líkt og Sara og Anníe Mist bendir Katrín Tanja á að áhyggjur sem crossfit íþróttafólk hafi viðrað við CrossFit fyrirtækið hafi verið fyrir daufum eyrum og að nú væri tímabært að axla ábyrgð. Öryggi og utanumhald íþróttamanna þurfi að bæta.

„Í mörg ár hafa íþróttamenn bent á áhyggjur sínar varðandi öryggi, hvort sem það snýr að hitaslagi, ofþjálfun eða öðrum áhættuþáttum, en á okkur hefur ekki verið hlustað.

Núna þurfum við að takast á við óhugsanlegar afleiðingar þess að þessar viðvaranir voru hunsaðar. Það eina sem ég held áfram að óska mér að við gætum farið til baka og búið til öðruvísi endalok en ekkert mun færa okkur hann aftur.

Það eina sem við getum vonast eftir er að ábyrgð verði öxluð og að gripið verði til aðgerða innan stofnunarinnar sem brást honum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert