Féll tvisvar á lyfjaprófi en fær ekki refsingu

Jannik Sinner vann Cincinnati-mótið í dag.
Jannik Sinner vann Cincinnati-mótið í dag. AFP/Matthew Stockman

Ítalska tenniskappanum Jannik Sinner verður ekki gerð refsing þrátt fyrir að hafa tvisvar fallið á lyfjaprófi í mars síðastliðnum.

Sinner, sem er í efsta sæti heimslistans, greindist með lítið magn umbrotsefnis af clostebol, tegund stera sem ýtir undir uppbyggingu vöðvamassa, á meðan hann keppti á Indian Wells-mótinu í Kaliforníuríki í Bandaríkjunum.

Átta dögum síðar skilaði önnur blóðprufa sömu niðurstöðu. Fór hann sjálfkrafa í keppnisbann til bráðabirgða en Sinner gat þó haldið áfram að spila eftir að hafa fært rök fyrir því að hann hafi ekki innbyrt ólögleg efni vísvitandi.

Alþjóðleg siðanefnd í tennis, ITIA, rannsakaði málið og komst að þeirri niðurstöðu að ólöglega efnið hafi borist óvart í blóðrás Sinners eftir meðhöndlun sjúkraþjálfara síns.

Sjúkraþjálfarinn hafði borið á sig sprey sem hægt er að fá án lyfseðils á Ítalíu vegna sárs á hendi. Sjúkraþjálfarinn hafi svo meðhöndlað Sinner með þeim afleiðingum að efnið barst óviljandi í blóðrás hans.

Í dag hrósaði Sinner sigri á Cincinnati-mótinu í Bandaríkjunum með því að hafa betur gegn Francis Tiafoe, 2:0, í úrslitaleik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka