Handtekinn grunaður um að pissa á sessunaut

Gosder Cherilus í leik með Detroit Lions árið 2008.
Gosder Cherilus í leik með Detroit Lions árið 2008. AFP/Jonathan Daniel

Fyrrverandi ruðningskappinn Gosder Cherilus var handtekinn við komu til Boston í Bandaríkjunum, grunaður um að hafa kastað af sér þvagi á sessunaut í flugi sem var á leið til Dyflinnar á Írlandi um síðustu helgi.

Vegna atviksins var flugvélinni snúið við til Boston og þurftu farþegar hennar af þeim sökum að fara í annað flug degi síðar. Flugvélin lagði af stað til Dyflinnar á sunnudaginn og lenti vélin á Írlandi á mánudagsmorgni.

Samkvæmt TMZ var Cherilus pirraður og ósamstarfsfús þegar lögreglumenn gengu inn í flugvélina til þess að handtaka hann, eftir að vélinni hafði verið snúið við og lent í Boston.

Cherilus, sem lék með Detroit Lions, Indianapolis Colts og Tampa Bay Buccaneers í NFL-deildinni á árunum 2008 til 2016, var sleppt eftir að hann greiddi 2.500 bandaríkjadali, um 345.000 íslenskar krónur, í lausnargjald.

Var honum fyrirskipað að halda sig frá áfengi og eiturlyfjum og mun Cherilus, sem er fertugur, mæta fyrir rétt þann 11. október næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert