Efsti maður á heimslistanum í tennis, Ítalinn Jannik Sinner, verður ekki refsað þrátt fyrir að hafa í tvígang fallið á lyfjaprófi. Annað tennisfólk segir hann fá sérstaka meðhöndlun vegna stöðu sinnar.
„Mismunandi reglur fyrir mismunandi leikmenn“, skrifaði tennisleikarinn Denis Shapovalov á samfélagsmiðla. Nick Kyrgios kallar niðurstöðuna „fáránlega“ og goðsögnin Chris Evert segir bestu leikmennina fá sérstaka vernd.
„Ég er sannfærð um að bestu leikmennirnir séu verndaðir, það er að segja að þessu hafi verið haldið leyndu. Þeir vilja ekki fá neikvæða fjölmiðlaumfjöllun. Það er meiri vernd í boði fyrir efsta mann á heimslista heldur en Joe Smith í 400. sæti listans“, sagði Evert sem sjálf vann átján grand slam mót á ferlinum.
Lítið magn sterans clostebol fannst í blóðsýni Sinner og átta dögum síðar skilaði önnur blóðprufa sömu niðurstöðu. Samkvæmt siðanefnd alþjóða tennissambandsins barst lyfið í blóð Sinner af höndum sjúkraþjálfara Ítalans.