Biðst afsökunar á því að dreifa samsæriskenningu

Ronda Rousey.
Ronda Rousey. Ljósmynd/UFC

Ronda Rousey, fyrrverandi bardagakona í blönduðum bardagalistum, hefur sent frá sér afsökunarbeiðni vegna myndbands sem hún dreifði fyrir ellefu árum síðan.

Rousey deildi þá myndskeiði þar sem samsæriskenningu var haldið á lofti um að fjöldamorð í Sandy Hook-grunnskólanum í Connecticut-ríki í Bandaríkjunum árið 2012 hafi aldrei átt sér stað.

„Ég get ekki lýst því hversu oft ég hef skrifað og endurskrifað þessa afsökunarbeiðni undanfarin 11 ár. Hversu oft ég hef sannfært sjálfa mig um að tímapunkturinn væri ekki réttur eða að ég myndi valda meiri skaða með því að biðjast afsökunar.

Ég horfði á samsæriskenningarmyndskeið um Sandy Hook og deildi því á Twitter. Ég trúði ekki því sem kom fram en mig hryllti svo við sannleikanum að ég vildi halda í einhvern skáldskap í staðinn,“ skrifaði hún í færslu sem hún birti á samfélagsmiðlum.

Hefði átt að slaufa mér

Tæplega 30 létust í fjöldamorðinu, þar af 20 nemendur á aldrinum sex til sjö ára.

„Ég áttaði mig fljótt á mistökum mínum og fjarlægði myndskeiðið en skaðinn var skeður. Satt að segja á ég skilið að vera hötuð, brennimerkt, fyrirlitin og verra fyrir þetta. Ég á skilið að verða af tækifærum og það hefði átt að slaufa mér.

Ég hefði átt það skilið. Ég á það enn skilið. Ég biðst afsökunar á því að þetta hafi komið ellefu árum of seint en til þeirra sem eiga um sárt að binda vegna fjöldamorðsins í Sandy Hook, frá dýpstu hjartarótum og sál minni biðst ég innilega afsökunar á þeim skaða sem ég olli.

Ég get ekki byrjað að ímynda mér sársaukann sem þið hafið gengið í gegnum og orð ná ekki utan um hversu mikið ég sé eftir þessu og hversu mikið ég skammast mín fyrir að hafa átt þátt í því að valda ykkur sársauka.

Ég hef séð eftir þessu á hverjum degi síðan og mun halda áfram að gera það þar til ég dey,“ hélt Rousey áfram.

Færsluna má lesa í heild sinni hér:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert