Rekur tvo eftir skandalinn

Jannik Sinner rak þjálfarann sinn og sjúkraþjálfarann sömuleiðis.
Jannik Sinner rak þjálfarann sinn og sjúkraþjálfarann sömuleiðis. AFP/Jamie Squire

Tenniskappinn Jannik Sinner, sem féll tvisvar á lyfjaprófi í mars, hefur rekið þjálfara sinn Umberto Ferrara sem og sjúkraþjálfara sinn Giacomo Naldi.

Sinner, sem er í efsta sæti heimslist­ans, greind­ist með lítið magn um­brots­efn­is af closte­bol, teg­und stera sem ýtir und­ir upp­bygg­ingu vöðvamassa, á meðan hann keppti á Indi­an Wells-mót­inu í Kali­forn­íu­ríki í Banda­ríkj­un­um.

Ítalinn slapp við bann þar sem alþjóðlega siðanefndin í tennis komst að þeirri niðurstöðu að efnið hafi óvart borist í blóðrás Sinners eftir meðhöndlun hjá sjúkraþjálfaranum.

Naldo hafði borið á sig sprey sem hægt er að fá án lyf­seðils á Ítal­íu vegna sárs á hendi. Sjúkraþjálf­ar­inn hafi svo meðhöndlað Sinner með þeim af­leiðing­um að efnið barst óvilj­andi í blóðrás hans.

Spreyið fékk Naldo frá Ferrara og hefur Sinner nú rekið þá báða.

„Ég vil þakka þeim fyrir að hafa jákvæð áhrif á ferilinn minn en því miður get ég ekki treyst þeim lengur,“ sagði hann við BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert