Stig frekar en verslunarleiðangur í London

Arnar Gunnlaugsson
Arnar Gunnlaugsson Ljósmynd/Kristinn Steinn

„Mér líst vel á þennan drátt,“ sagði Arnar Gunnlaugsson þjálfari Víkings í samtali við mbl.is um drátt Íslands- og bikarmeistaranna í Sambandsdeild Evrópu í fótbolta í dag.

Víkingar mæta armenska liðinu Noah, sem Guðmund­ur Þór­ar­ins­son leik­ur með, aust­ur­ríska liðinu LASK og Omonoia frá Kýp­ur á úti­velli og Djurgår­d­en frá Svíþjóð, belg­íska liðinu Cercle Brug­ge og Borac Banja Luka frá Bosn­íu á heima­velli.

„Fyrst vorum við að pæla í hvort það væri gaman að fá meira sexí lið, en þú vilt vera í þessari keppni til að vinna leiki.

Við fengum lakasta liðið í efsta pottinum og svo var þetta blandað í hinum pottunum. Í sumum pottum fengum við mjög góð lið og í öðrum ekki eins góð,“ sagði Arnar.

Víkingur sló UE Santa Coloma úr leik í umspilinu.
Víkingur sló UE Santa Coloma úr leik í umspilinu. Eggert Jóhannesson

Hann sér góða möguleika fyrir Víkinga að verða fyrsta íslenska liðið til að ná í stig, í fleirtölu, í riðla/deildarkeppni Sambandsdeildarinnar.

„Ég sé enga ástæðu hvers vegna það ætti ekki að vera. Við erum með góða heimaleiki og við erum með góða reynslu á að mæta sænskum liðum frá því við spiluðum við Malmö fyrir tveimur árum síðan. Borac vann svo Egnatia, sem við slógum út, í vítakeppni. Það verður svo gaman að fara til Armeníu og spila við Gumma Tóta og félaga.“

Nýtt fyrirkomulag er á keppnum UEFA í ár. Í staðinn fyrir hefðbundinn riðil er deild. Í sambandsdeildinni spilar hvert lið sex leiki, með það að markmiði að fara áfram í 16-liða úrslit.

Liðin sem enda í efstu átta sæt­un­um fara áfram í 16-liða úr­slit keppn­inn­ar en liðin í 9.-24. sæti mæt­ast í um­spili um laust sæti í út­slátta­keppn­inni. Liðin sem enda í 25.-36. sæti falla úr keppni.

„Það var mjög gaman að fylgjast með þessum drætti. Þetta var spennandi. Um leið og þetta fyrirkomulag var tilkynnt á sínum tíma varð ég spenntur. Þetta býður upp á mikla möguleika og sviptingar. Það er áhugavert að spila við sex lið í staðinn fyrir þrjú. Þetta lofar góðu,“ sagði hann.

Víkingur sló Flora Tallinn úr leik í 3. umferð.
Víkingur sló Flora Tallinn úr leik í 3. umferð. mbl.is/Eyþór Árnason

Víkingur hefði getað fengið stórlið á borð við Chelsea á Englandi og Fiorentina frá Ítalíu. Þess í stað dróst íslenska liðið með LASK frá Austurríki úr efsta styrkleikaflokki.

„Það fer eftir því hvort þú sért í þessu til að fara í verslunarleiðangur í London, eða vilt vinna einhver stig. Auðvitað væru möguleikarnir litlir gegn Chelsea og Fiorentina og meiri gegn LASK.

Ef við berum þetta saman við bikarkeppnina heima, þá viltu ekki fá Breiðablik í 16-liða úrslitum heldur eitthvert slakara lið. Þú vilt eiga möguleika að fara áfram og eftir á að hyggja erum við mjög sáttir við riðilinn þótt Íslendingum finnist þetta ekki mjög sexí lið,“ sagði Arnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert