Bara stórt sár og tómarúm

Ferili Anítu er lokið og hún er ekki sátt.
Ferili Anítu er lokið og hún er ekki sátt. Ljósmynd/Hafsteinn Einarsson

Aníta Hauksdóttir, margfaldur Íslandsmeistari í mótorsporti, hefur lagt mótorhjólinu og hætt keppni. Aníta, sem hefur þrívegis verið útnefnd aksturíþróttakona Íslands, greindi frá tíðundunum í harðorðum pistli á Facebook í gær.

Síðasta keppni ársins átti að fara fram í gær en var frestað, eitthvað sem Aníta er allt annað en sátt við. Sakar hún akstursíþróttasamfélagið á Íslandi m.a. um hatur og grimmd og stjórn Mótorhjóla & Snjósleðaíþróttasamband Íslands um hrokafull og niðrandi svör. 

Pistill Anítu í heild sinni:

Það er í mikilli sorg að ég tilkynni hér með endalok míns ferils í motocrossi á Íslandi. Síðasta keppni ársins átti að fara fram í dag - ég er búin að bíða svo spennt eftir deginum, eftirvæntingin svo mikil, loksins uppskera eftir erfiðið, endurkomuna eftir meiðslin og velgengni keppnistímabilsins.

En keppnin var færð um dagssetningu með ólögmætum hætti á þann veg að ég gæti ekki tekið þátt. Reglur MSÍ eru mjög skýrar. Varadagsetning er auglýst og keppni skal færð á varadag. Ef það er ekki hægt skal hún felld niður.

Það hvarflaði aldrei að mér að svona mikið hatur, grimmd og holskefla ljótra athugasemda þar sem motorcross samfélagið hreinlega snérist gegn mér með öllu myndi eiga sér stað á 24 klukkustundum. Vegna þess að ég gerði þá kröfu um að þessum reglum yrði fylgt. Íslandsmeistaratitillinn minn var í húfi - þeir sem þekkja mig vita að þetta er lífið mitt, óbilandi ástríða og markmiðin mín líka. Og mikið sem ég hef lagt á mig til þess að sjá þau verða að veruleika.

En ég fékk hrokafull og niðrandi svör frá stjórn sambandsins sem stýrir umhverfi ástríðu minnar. Svo einfalt var það. Hvað svosem verður úr þessu er ljóst að gleðin yfir íslandsmeistaratitlinum er meira en horfin. Það er bara stórt sár og tómarúm.

Ég er búin að stunda motocross í 24 ár - og hér með lýkur þeim ferli. Átakanlega og ömurlega.

Innilegust þakkir til stuðningsaðila minna sem hafa gert mér kleift að stunda þetta sport af svo miklum krafti 

P.s - ef þið ykkar sem hafið eytt síðustu klukkutímum í að rakka mig niður með einum eða öðrum hætti hugsið um að halda því áfram hér - ekki eyða tíma í það. Ruslinu ykkar verður eytt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka