Þetta voru ekki sanngjörn úrslit

Heimir Guðjónsson á hliðarlínunni í dag.
Heimir Guðjónsson á hliðarlínunni í dag. mbl.is/Ólafur Árdal

Heimir Guðjónsson þjálfari FH var allt annað en ánægður með 3:0 tap gegn Stjörnunni í Kaplakrika í kvöld.

Spurður að því hvort úrslitin í kvöld hafi verið sanngjörn sagði Heimir þetta:

„Nei þetta voru ekki sanngjörn úrslit en það spyr enginn að því í fótbolta. Ef það væri spurt að sanngirni þá værum við efstir." sagði Heimir kíminn.

Þið náið algjörum tökum á leiknum í lok fyrri hálfleiks og byrjun þess seinni. Síðan kemur fyrsta mark Stjörnunnar. Myndir þú segja að það hafi verið gegn gangi leiksins?

„Jú þetta var gegn gangi leiksins. Það sem Stjarnan gerir vel er að svæfa leiki og það gerðu þeir.

Því miður þá tókum við þátt í því fyrstu 20-25 mínúturnar en þegar leið á fyrri hálfleik á náum við tökum á þessu og svo líka í byrjun síðari hálfleiks.

Hins vegar er það þannig að mörk breyta leikjum og fengum á okkur klaufalegt mark í fyrsta markinu þar sem þeir opna svæði milli varnar og miðju sem þeir eru ansi góðir í. En þó við héldum áfram að leiða leikinn þá fór skipulagið svolítið út um gluggann en ég gef mönnum það að þeir reyndu."

FH skapaði sér samt talsvert af hálffærum og eitthvað af góðum marktækifærum en einhvern veginn vantar alltaf aðeins upp á til að klára dæmið. Hvað er það sem þarf til að klára þessi færi hjá þínum mönnum?

„Betri ákvörðunartökur á síðasta þriðjungi. Það er svolítið sagan okkar í sumar þar sem við sköpum fullt. Ef við skoðum bara leikinn gegn Val um daginn þá fá þeir tvö færi og skora úr þeim. Við fáum 6-7 góð færi og skorum 2 mörk.

Síðan er það þannig að menn gera alltaf mistök í fótbolta en við þurfum að reyna fækka þeim mistökum sem valda því að við fáum á okkur mörk. Ef við gerum það þá erum við í góðum málum.

Það þýðir samt ekkert að mála skrattann á vegginn við erum búnir að eiga ágætis sumar og spila mjög vel á löngum köflum. Nú þurfum við bara að halda áfram og enda þetta tímabil vel."

Þið voruð nánast öryggir að vera í efri hlutanum fyrir þennan leik. Hefur þetta mikil áhrif á framaldið fyrir FH, skipti þessi leikur miklu máli?

"„á klárlega skipti þessu leikur miklu máli því að við hefðum getað tryggt okkur inn í topp 6 með sigri og mögulega tekið þriðja sætið.

Við viljum vera með sem flest stig þegar við förum í þessa úrslitakeppni og því voru mikil vonbrigði að tapa þessum leik," sagði Heimir í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert