Vonast eftir nýjum velli 2027

Freyr Ólafsson á Laugardalsvelli í dag.
Freyr Ólafsson á Laugardalsvelli í dag. Eggert Jóhannesson

„Kyrrstaðan er rofin,“ sagði Freyr Ólafsson formaður Frjálsíþróttasambands Íslands í samtali við mbl.is um áform um að byggja nýjan leikvang fyrir frjálsíþróttir í Laugardalnum og færa aðstöðuna af Laugardalsvelli.

„Við erum búin að bíða lengi eftir einhvers konar ákvörðun og sjá allskonar svipmyndum teflt fram í gegnum ansi mörg ár. Við höfum verið í biðgírnum frá 2012 eða 2013. Við erum loksins komin úr biðgírnum og nú dreymir okkur um aðstöðu sem er upphituð og nýtist stóran hluta árs. Vonandi verður það sem best samtengt innanhúsaðstöðunni í Laugardalnum,“ sagði Freyr.

Hann vonast til að smáþjóðameistaramót verði haldið hér á landi eftir fjögur ár, á nýjum frjálsíþróttavelli í Laugardalnum.

„Við höfum ekki getað haldið alþjóðleg mót í Laugardalnum. Nú mun það gerast innan fárra ára. Ég er sáttur með þessa lendingu. Það á samt eftir að hanna og ganga frá hvernig nýr leikvangur verður.

Það er smáþjóðameistaramót árið 2028 sem ég vonast til að verði haldið hér í Laugardalnum á nýjum velli. Það þýðir að völlurinn verður tilbúinn árið 2027. Ég vonast til að sjá það,“ sagði hann.

Freyr er sáttur við að frjálsar fái sinn eigin völl og mótahöld verði ekki háð dagskrá knattspyrnusambandsins.

„Við erum að staðfesta aðskilnaðinn með þessum samningi. Knattspyrnan og frjálsar hafa verið hér saman frá 1993 í rekstrarsamningi KSÍ. Við höfum því verið hér á forsendum knattspyrnusambandsins. Það verður spennandi að fá að stýra velli á okkar forsendum, t.d. bóka mót nokkur ár fram í tímann og ekki að þurfa að vonast til að Laugardalsvöllur sé laus.“

En hvernig verða næstu skref?

„Við erum að stofna starfshóp um verkefnið þar sem hagsmunaaðilar koma saman. Vonandi er það uppskrift að hönnunarvinnu í framhaldinu. Það á eftir að fínpússa aðeins kostnaðarskiptingu ríkis og borgar. Það verður leyst í þessari nefnd eða næstu nefndum.

Það var skipaður starfshópur af menntamálaráðuneytinu sem skilaði ákveðnum hugmyndum árið 2021. Þær hugmyndir snerust um að við yrðum ekki á Laugardalsvelli. Þetta er skynsamari, ódýrari, hraðvirkari og betri lending,“ sagði Freyr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert