Breytti hugarfarinu og sló eigið Íslandsmet

Sonja Sigurðardóttir.
Sonja Sigurðardóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sonja Sigurðardóttir sló eigið Íslandsmet og hafnaði í sjöunda sæti í átta manna úrslitum í 50 metra baksundi á Paralympics-leikunum í París í gær. Sonja synti á 1:07,46 mínútum en fyrra met hennar frá því á síðasta ári var 1:07,82 mínútur.

„Tilfinningin er æðisleg,“ sagði Sonja í samtali við Morgunblaðið eftir úrslitasundið í gær. Hún var áttunda inn í úrslitin eftir að hún synti á 1:10,65 mínútum í undanúrslitunum um morguninn en bætti tímann sinn verulega í úrslitunum.

Spurð hver helsti munurinn hafi verið á úrslitasundinu og undanúrslitasundinu sagði Sonja hann einfaldan: „Þetta var náttúrlega bæting um þrjár sekúndur.“

Hún kvaðst þá ekki hafa breytt miklu á milli undanúrslita og úrslita fyrir utan einn lykilþátt. „Nei, bara hugarfarinu held ég,“ sagði Sonja.

Ekki mikið að pæla í fólkinu

Sem fyrr var mikil og góð stemning í Paris La Défense-höllinni þar sem setið var í hverju sæti, en höllin tekur 10.000 áhorfendur. Sonju var vel fagnað þegar hún kom inn og gerði sig reiðubúna fyrir úrslitin.

Hún sagðist ekki mikið hafa gefið áhorfendum gaum en það væri vissulega gott að hafa þá.

„Ég var nú ekkert mikið að pæla í fólkinu. Það er samt mjög hvetjandi að hafa þetta fólk.“

Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert