Logi Norðurlandameistari – tvö silfur til Íslands

Logi Geirsson fagnar eftir að hann tryggði sér Norðurlandameistaratitilinn.
Logi Geirsson fagnar eftir að hann tryggði sér Norðurlandameistaratitilinn. Ljósmynd/Klosterskov Foto

Norðurlandamótið í blönduðum bardagaíþróttum fór fram um síðustu helgi í Danmörku þar sem fjórir bardagamenn frá Íslandi tóku þátt. Logi Geirsson varð Norðurlandameistari í sínum flokki og Mikael Aclipen og Júlíus Bernsdorf unnu til silfurverðlauna í sínum flokkum.

Keppendur komu frá Íslandi, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Danmörku. Hvert land mátti senda einn keppenda í hverjum þyngdarflokki.

Keppendurnir fjórir komu allir úr Mjölni; Aron Franz Bergmann Kristjánsson í léttvigt, Mikael Aclipen í veltivigt, Logi Geirsson í millivigt og Júlíus Bernsdorf í þungavigt. Gunnar Nelson fylgdi hópnum sem þjálfari ásamt fleirum.

Logi gerði sér lítið fyrir og varð Norðurlandameistari í sínum flokki eftir öruggan sigur á Norðmanninum Vebjørn Aunet. Allir dómararnir gáfu Loga sigur í öllum þremur lotunum. Þetta var frumraun Loga í blönduðum bardagaíþróttum en hann er ríkjandi Íslandsmeistari í sínum flokki í uppgjafarglímu.

Logi með Aunet í glímutaki.
Logi með Aunet í glímutaki. Ljósmynd/Klosterskov Foto

Mikael Aclipen vann til silfurverðlauna í sínum flokki eftir tap í úrslitaviðureign eftir dómaraúrskurð gegn heimamanninum Patrick Sandager. Mikael hafði áður unnið Finnann Theo Kolehmainen örugglega með hengingartaki í fyrstu lotu í undanúrslitum.

Júlíus Bernsdorf þurfti einnig að sætta sig við silfur eftir tap á dómaraúrskurði gegn heimamanninum Jakob Dyrup. Bardaginn fór allur fram standandi þar sem þeir skiptust á höggum í þrjár lotur.

Aron Franz komst ekki í úrslit eftir tap gegn heimamanninum Sigurd Axel Rømer í undanúrslitum en bardaginn vannst á tæknilegu rothöggi í þriðju lotu.

„Við Íslendingar getum hins vegar vel við unað með eitt gull og tvö silfur þó við hefðum svo sannarlega vilja tvö gull þar sem Mikael hefði klárlega átt að fá dómaraúrskurðinn sín megin í úrslitaviðureigninni gegn heimamanninum,“ sagði meðal annars í tilkynningu frá Mjölni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert