Gamla ljósmyndin: Vann hug og hjörtu landsmanna

Ljósmynd/Eva Björk

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Þessi dagskrárliður snýr nú aftur eftir sumarfrí, við ómælda gleði lesenda ef af líkum lætur.

Nú þegar Paralympics leikarnir eru í gangi í París er skemmtilegt að rifja upp afrek Jóns Margeirs Sverrissonar á Paralympics í London 2012. Tíminn líður hratt eins og Magnús Eiríksson minnti á hér um árið og liðin eru tólf ár frá því Jón Margeir vann hug og hjörtu landsmanna með glæsilegu afreki og hispurslausri framkomu. 

Jón Margeir vann til gullverðlauna í 200 metra skriðsundi, eða sundi með frjálsri aðferð eins og það er strangt til tekið kallað, í flokki S14. Jóni tókst það sem alla dreymir um og það er að hámarka árangur sinn á stórmóti því hann setti um leið heimsmet. Jón synti vegalengdina í ólympíulauginni glæsilegu í London á 1:59,62 mínútum. 

Jón Margeir er síðasti Íslendingurinn til að vinna til gullverðlauna á Paralympics og var ekki orðinn tvítugur þegar hann stóð á efsta palli. Daniel Fox frá Ástr­al­íu varð ann­ar á 1:59,79 og Cho Wonsang frá Suður-Kóreu þriðji á 1:59,93 mín­út­um.

Á meðfylgjandi mynd fagnar Jón sigri með gullið um hálsinn en myndina tók Eva Björk Ægisdóttir sem myndaði fyrir Íþróttasamband fatlaðra og mbl.is á leikunum. 

Jón Margeir átti eftir að sýna að árangurinn í London var ekki tilviljun. Hann varð Evrópumeistari í greininni tveimur árum síðar í Hollandi og fékk tvívegis silfurverðlaun á HM. Fyrst í Kanada 2013 og aftur í Skotlandi 2015. 

Jón Margeir keppti fyrir Fjölni/Ösp og var valinn Íþróttamaður Reykjavíkur árið 2012. Hann hafnaði jafnframt í 3. sæti í kjörinu á íþróttamanni ársins hjá Samtökum íþróttafréttamanna sama ár. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert