Gamla ljósmyndin: Fyrstur yfir 2,15

Morgunblaðið/Einar Falur

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Gunnlaugur Grettisson er í hópi bestu hástökkvara þjóðarinnar og fór fyrstur Íslendinga yfir 215 sentimetra eða 2,15 eins og tamt er að nota á íþróttamáli. 

Íslandsmetið setti Gunnlaugur á alþjóðlegu móti í Schwechat í Austurríki hinn 15. júní árið 1988 og stóð það í fjögur ár en þá bætti Einar Kristjánsson metið um sentimeter.

Hafnaði Gunnlaugur í 4. sæti á mótinu í Austurríki en sigurvegari var enginn annar en besti hástökkvari sögunnar, Javier Sotomayor frá Kúbu, sem stökk yfir 4,30. 

Gunnlaugur bætti þar fjögurra ára gamalt Íslandsmet Unnars Vilhjálmssonar sem hafði farið yfir 2,12. Gunnlaugur sagðist í samtali við Morgunblaðið morguninn eftir að hann hafi verið hátt yfir 2,15 og verið klaufi að fella 2,20 í þriðju tilraun. 

„Ég var ragur í fyrstu tveimur tilraununum við 2,20 en það var skömm að fella þá hæð í þriðju tilraun. Þá var ég hátt yfir ránni en fetti mig ekki nógu vel og krækti naumlega í hana með hælnum á niðurleiðinni.“

Á meðfylgjandi mynd er Gunnlaugur lagstur yfir 2,08 af yfirvegun á Íslandsmótinu innanhúss árið 1988 en það árið reyndi Gunnlaugur að vinna sér keppnisrétt á Ólympíuleikunum í Seoul. Myndina tók Einar Falur Ingólfsson sem myndaði fyrir Morgunblaðið í áratugi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert