„Ég er vonlaus“

Ronnie O'Sullivan
Ronnie O'Sullivan AFP/Hector Retamal

Ronnie O'Sullivan tapaði fyrir He Guoqiang í fyrstu umferð Opna enska mótsins í snóker í gær en Englendingurinn, sem er talinn einn allra besti snókerleikari sögunnar, notaði vinstri höndina í mörgum skotum leiksins.

Guoqiang vann 4:2 en O'Sullivan náði sér aldrei á strik. Aðspurður hvers vegna hann hefði leikið með vinstri hendi jafn oft og raun bar vitni sagðist hann einfaldlega vera vonlaus.

„Ég er algjörlega vonlaus, þess vegna gerði ég það. Gleymdu heimsmeistaramótinu, ég er ekki einu sinni að hugsa um það. Ef ég spila svona hræðilega get ég alveg eins spilað með verri hendinni“, sagði O'Sullivan að leik loknum.

O'Sullivan er 48 ára gamall og segist finna fyrir aldrinum.

„Ég á ekki mikið eftir af ferlinum, ég neita því ekki. Ég hef ekki spilað næginlega vel en það þýðir ekki að hafa of miklar áhyggjur af því. Ég hef sætt mig við það og það er allt í lagi“ sagði goðsögnin að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert