Hvílir eftir heilahristinginn

Tua Tagovailoa.
Tua Tagovailoa. AFP/Megan Briggs

Leikstjórnandi Miami Dolphins í NFL-deildinni í amerískum fótbolta, Tua Tagovailoa, verður frá keppni næstu fjórar vikurnar hið minnsta eftir að hafa hlotið alvarlegan heilahristing gegn Buffalo Bills á fimmtudaginn.

Miami-liðið hefur skráð hann á meiðslalista næstu fjóra leikina en höfuðhöggið sem hann hlaut gegn Buffalo vakti óhug.

Tagovailoa skeiðaði með boltann fram völlinn og beygði sig niður til að sækja snertingu frá varnarmanni Buffalo en rotaðist við höggið og líkami hans stífnaði upp með þeim afleiðingum að önnur hönd hans leitaði upp í loftið.

Tua á bakinu eftir höfuðhöggið gegn Buffalo.
Tua á bakinu eftir höfuðhöggið gegn Buffalo. AFP/Carmen Mandato

Um var að ræða þriðja heilahristing leikstjórnandans á ferlinum en mikil vitundarvakning um alvarleika höfuðhögga í amerískum fótbolta hefur átt sér stað undanfarin fimmtán ár.

Tagovailoa fékk heilahristing fyrir tveimur árum síðan þar sem læknateymi Miami leyfði honum að snúa aftur á völlinn og klára leikinn þrátt fyrir að leikmaðurinn hafi augljóslega verið reikull í spori eftir höggið.

Í kjölfarið var reglum um meðferð höfuðhögga breytt af NFL-deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert