Red Bull lætur Ricciardo róa

Daniel Ricciardo er bíllaus.
Daniel Ricciardo er bíllaus. AFP/Andrej Isakovic

Ökuþórinn Daniel Ricciardo hefur misst sæti sitt hjá RB, varaliði Red Bull, í Formúlu 1-kappakstrinum. Ástralinn er einn vinsælasti ökumaður Formúlu 1 en árangurinn hefur látið á sér standa undanfarin ár.

Sex keppnir eru eftir af tímabilinu en Liam Lawson tekur sæti Ricciardo. Red Bull er talið vilja gefa Lawson tækifæri til að sanna sig áður en lokaákvörðun verði tekin um ökumenn fyrir næsta tímabil.

Lawson tók sæti Ricciardo á síðasta tímabili þegar Ástralinn úlnliðsbrotnaði og var fjarri góðu gamni í fimm keppnum. Lawson stóð sig prýðilega og náði meðal annars í tvö stig í Singapúr.

Ricciardo hóf ferilinn hjá Red Bull og stóð sig vel en uppgangur Max Verstappen batt enda á veru Ástralans hjá liðinu. Síðan hefur Ricciardo ekið fyrir Renault og McLaren með takmörkuðum árangri en nú lítur út fyrir að hans tíma í Formúlu 1 sé lokið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert