Michael Schumacher, einn besti akstursíþróttamaður allra tíma, sást á meðal fólks í fyrsta skipti í rúman áratug er hann var á meðal gesta í brúðkaupi dóttur sinnar á Mallorca á Spáni um helgina.
Þjóðverjinn lenti í hræðilegu skíðaslysi í desember 2013, fór í dá og varð fyrir heilaskaða. Hann var fluttur á heimilið sitt í Sviss í september 2014 og hefur mikil leynd ríkt um ástand hans allar götur síðan.
Engir símar voru leyfðir í brúðkaupinu og því engar myndir teknar af heimsmeistaranum sjöfalda. Samkvæmt Marca á Spáni var það til að koma í veg fyrir óæskilegar myndir og fjárkúganir.
Aðeins örfáir einstaklingar mega heimsækja Schumacher og því enn lítið vitað um nákvæmt ástand hans eftir slysið.