Tók 90 mínútur að finna hjólreiðakonuna sem lést

Hjólreiðasamfélagið er í sárum eftir sviplegt fráfall Muriel Ferrer, 18 …
Hjólreiðasamfélagið er í sárum eftir sviplegt fráfall Muriel Ferrer, 18 ára hjólreiðakonu frá Sviss. AFP/Fabrice Coffrini

Muriel Furrer, svissneska hjólreiðakonan sem lést eftir að hafa slasast alvarlega á heimsmeistaramótinu í Zürich í Sviss, fannst ekki fyrr en einum og hálfum klukkutíma eftir að hún slasaðist.

Furrer var aðeins 18 ára gömul þegar hún lést af sárum sínum í síðustu viku. Furrer féll af hjóli sínu við að taka krappa beygju á sleipum vegi eftir mikla rigningu í Zürich og slasaðist alvarlega á heila með þeim afleiðingum að hún lést nokkrum klukkustundum síðar.

Svissneski miðillinn Blick greinir frá því að það hafi tekið skipuleggjendur heimsmeistaramótsins 90 mínútur að finna Furrer.

Canadian Cycling-tímaritið fullyrðir þá að starfsmaður mótsins hafi fyrstur komið auga á hana þar sem Furrer lá slösuð innan skógi vaxins svæðis eftir að keppni hafði lokið.

Klukkutími til viðbótar hafi svo liðið áður en sjúkraþyrla hafi komið á vettvang og flutt Furrer á sjúkrahús, sem tók aðeins þrjár mínútur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert